Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hált nýlagt malbik á slysstað

Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Mjög hált nýlagt malbik er á Vesturlandsvegi þar sem alvarlegt umferðarslys varð á Kjalarnesi í dag. Húsbíll og tvö bifhjól lentu í slysinu og slösuðust þrír alvarlega að sögn lögreglu. Alls voru fjórir í bílnum og á bifhjólunum. Ekki er grunur um hraðakstur.

Áreksturinn varð á Kjalarnesi, norðan við þéttbýlið, á fjórða tímanum í dag. Húsbíll og bifhjól á leið í gagnstæða átt lentu saman og annað bifhjól lenti utan vegar. Fjórir lentu í slysinu, ökumenn og farþegi. Þrír slösuðust alvarlega að sögn lögreglu. Nýlagt malbik er á þessum slóðum og það er mjög sleipt. Ekki leikur grunur á hraðakstri. Þegar var kallað út fjölmennt lið Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Lögregla lokaði Vesturlandsvegi í fyrstu frá Hvalfjarðargöngum að Þingvallavegi. Langar bílaraðir mynduðust beggja vegna slysstaðar. Þegar á leið voru Hvalfjarðargöng opnuð á ný en Vesturlandsvegur lokaður við Hvalfjarðarveg. Fólk þurfti því að fara hjáleið um Kjósarskarð og Þingvallaveg til að komast leiðar sinnar.

Óskað var eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar sem lenti nærri slysstað á fjórða tímanum í dag. Á sama tíma var sjúkrabíll á leið með sjúkling frá Vesturlandi til Reykjavíkur fastur í bílaröð fyrir norðan Hvalfjarðargöng. Þyrlan var því send norður fyrir göng, til að sækja þann sjúkling og flytja hann í flýti á sjúkrahús.

Lögregla er enn að störfum á slysstað. Vesturlandsvegur verður líklega lokaður næsta klukkutímann hið minnsta.

Viðbragðshópur Rauða kross Íslands var kallaður út og opnaði fjöldahjálparstöð í Klébergsskóla á Kjalarnesi. Þar var hlúð að fólki og þeim sem þess óskuðu veittur sálrænn stuðningur.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Gauti Gunnarsson - RÚV
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV