Lokaumferðin í 2. deild karla í þýskalandi fór fram í dag og var Guðlaugur Victor Pálsson í byrjunarliði Darmstadt sem mætti Stuttgart í lokaleik sínum. Fyrir leik var Stuttgart nær öruggt með sæti í efstu deild á næstu leiktíð og lið Darmstadt átti ekki lengur möguleika á því að fara upp um deild. Á 65. mínútu leiksins fékk Guðlaugur Victor gult spjald og aðeins nokkrum sekúndum síðar fékk hann sitt annað gula spjald og þar með rautt. Fékk hann seinna gula spjaldið fyrir hendi og virtist vera að um strangan dóm væri að ræða. Brottvísun hans kom þó ekki að sök en Darmstad vann leikinn með þremur mörkum gegn einu. Liðið endar í 5. sæti deildarinnar, þremur stigum frá umspilssæti.
Lokaumferð efstu deildar kvenna fór einnig fram í dag og þar hefði Íslendingaviðureign getað átt sér stað þegar að Þýskalandsmeistarar Wolfsburg tóku á móti Bayer Leverkusen. Sara Björk Gunnarsdóttir var ekki í leikmannahópi Wolfsburg í dag en hún hefur þegar gefið það út að hún muni ekki spila með Wolfsburg á næstu leiktíð, hún hefur því lítið leikið með liðinu að undanförnu og rennur samningur hennar út um mánaðarmótin. Því er ljóst að Sara Björk hefur leikið sinn síðasta leik fyrir liðið.
Í byrjunarliði Bayer Leverkusen var hinsvegar Sandra María Jessen og hún spilaði allan leikinn. Hún gat þó ekki komið í veg fyrir 5-0 tap en Bayer Leverkusen heldur sér þó í efstu deild þar sem liðið er með betri markatölu en lið Köln sem fellur úr deildinni.