Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Góða Ólavsvøku!

28.06.2020 - 23:15
Ólafsvaka í Þórshöfn í Færeyjum
 Mynd: Kringvarp Færeyja
Færeyingar gera ráð fyrir að halda þjóðhátíð sína, Ólafsvöku, með næstum vanalegu sniði 28. og 29. júlí. Hátíðin er haldin á dánardægri Ólafs helga Haraldssonar Noregskonungs sem sameinaði Noreg snemma á 11. öld.

Lögþingið er sett 29. júlí við hátíðlega athöfn. Daginn áður er mikið um dýrðir og hyggjast Færeyingar gera sitt ítrasta til að svo verði einnig í ár þrátt fyrir COVID-19.

Þórshöfn verður skreytt hátt og lágt rétt eins og venjulega og hefðbundin skrúðganga verður á sínum stað. Reynt verður að takmarka fjölda þátttakenda eins og mögulegt er.

Bæjaryfirvöld kveðast treysta fólki til að fara að öllu með gát. Aðrir hefðbundnir viðburðir á borð við róðrarkeppni og listsýningu verða því á sínum stað. Tvennu verður þó að breyta.

Ekkert verður af hinum hefðbundna miðnæturfjöldasöng sem iðulega laðar að sér þúsundir í miðbæ Þórshafnar heldur verður sungið í smærri hópum um allan bæ. Kringvarpið verður með beint streymi frá fjöldasöngnum. Engin leiktæki verða heldur sett upp á Skálatrøð.

Veitingastaðir og kaffihús verða opin en reynt verður að sjá til þess að gestir sitji eins mikið úti við og mögulegt er.