Framhaldslíf Skólarapps gleður ítalskan höfund lagsins

Mynd: Samsett / Samsett

Framhaldslíf Skólarapps gleður ítalskan höfund lagsins

28.06.2020 - 12:27

Höfundar

Í ár eru 25 ár frá því Skólarapp fór eins og stormsveipur um landið. Lagið er upprunalega ítalskt og er höfundur þess ánægður með velgengni og framhaldslíf þess á Íslandi.

Umberto Napolitano er höfundur hins upprunalega Skólarapps, sem á ítölsku nefnist Scuola Rap. Slegið var á þráðinn til hans í Lestinni á Rás 1 í tilefni af 25 ára afmæli íslensku útgáfunnar. Umberto er afar ánægður með vinsældir lagsins á Íslandi, enda segir hann það draum hvers höfundar að verk sín fái að lifa áfram.

Mynd: Skólarapp / Skjáskot skólarapp myndband
Skólarapp kom fyrst út 1995.

Útgáfa lagsins frá árinu 1995 er raunar ekki ekki sú eina sem komið hefur út í íslenskum búningi. Árið 2017 gaf UNICEF út nýtt Skólarapp í tilefni af degi rauða nefsins. 

Í hinu nýja Skólarappi komu fram upprunalegir flytjendur lagsins, Þorvaldur Davíð Kristjánsson og Sara Dís Hjaltested, ásamt helstu röppurum landsins. Lagið fékk mikla spilun hér á landi og Umberto er ekki síður ánægður með þá útgáfu lagsins.

 

Með ítalskan aðdáendaklúbb

Saga Skólarapps hófst í ítölsku barnasöngvakeppninni Zecchino d’oro þar sem Sara Dís keppti fyrir Íslands hönd árið 1994. Lögin í keppninni voru svo gefin út á plötunni Barnabros 2: Frá Ítalíu.

Líf Söru Dísar tók stakkaskiptum eftir keppnina en hún var skyndilega orðin stórstjarna á landsvísu. Útgáfutónleikar Barnabross voru haldnir í Perlunni og áætlar Sara Dís að um 4000 manns hafi mætt. Hún segist enn þá vera „Skólarapps-stelpan“ hvert sem hún fer, enda varla mannsbarn á hennar aldri sem ekki þekkir lagið.

Frægð Söru Dísar nær út líka fyrir landssteinana. Hún er með ítalskan aðdáendaklúbb sem hefur sent henni afmælisgjafir árlega í aldarfjórðung. Enn þann dag í dag hafa margir Ítalir samband við hana á ári hverju og einn aðdáandi gekk svo langt að heimsækja hana.

Fjallað var ítarlega um sögu Skólarapps í Lestinni á Rás 1. Hlustaðu á þáttinn í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Tónlist

Stórskotalið rappara endurgerði Skólarapp