Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Falið að halda áfram á sömu braut

Mynd: Hjalti Haraldsson / RÚV
„Það er gott veganesti, staðfesting á því að landsmenn hafa kunnað því vel hvernig ég hef hagað mínum verkum hér á Bessastöðum, og vísbending um það og staðfesting um að mér er falið það hlutverk að halda áfram á sömu braut. Fyrir það er ég afar þakklátur,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson forseti í viðtali í aukafréttatíma RÚV í hádeginu.

Guðni sagði kjörsókn vera með ágætum og mat það svo að Íslendingum þætti vænt um forsetaembættið og vildu sýna því virðingu. Hann sagði ánægjulegt að Íslendingar veldu að nýta kosningarétt sinn þrátt fyrir veirutíma og vísbendingar kosninga um niðurstöðuna.

Gott umboð er frekar hvatning til að halda áfram á sömu braut en ástæða til að beita sér með öðrum hætti, sagði Guðni. „Íslendingar vilja að hefðir og venjur séu virtar þegar embætti forseta Íslands er annars vegar. Sá eða sú sem situr á Bessastöðum hefur þeim skyldum að gegna að efla og styrkja það sem sameinar okkur, vera fastur fyrir þegar á þarf að halda en leitast um leið við að hlusta á öll sjónarmið í samfélaginu.“ Hann sagði að forseti þyrfti að vera reiðubúinn að stíga inn á hið pólitíska svið og taka í taumana þegar nauðsyn krefði en vera utan þess frá degi til dags. Hann vísaði þar til stjórnarmyndunarhlutverks og réttar forseta til að synja lögum staðfestingar. „Þetta er réttur sem hefur verið virkur og ber að horfa til þegar ótvíræður vilji er til þess í hugum kjósenda að forseti stígi inn með þeim hætti.“

Forseti óskaði Guðmundi Franklín Jónssyni velfarnaðar í því sem hann tekur sér fyrir hendur.

Guðni hvatti fólk til að taka höndum saman um bæta samfélagið dag frá degi. „Þar hefur forseti hlutverki að gegna, oftar en ekki á óbeinan hátt. Ekki bera að vanmeta það.“