Bandarískar knattspyrnukonur krupu yfir þjóðsöngnum

Mynd með færslu
 Mynd: Twitter

Bandarískar knattspyrnukonur krupu yfir þjóðsöngnum

28.06.2020 - 12:31
Bandarískar knattspyrnukonur krupu undir þjóðsöngnum þegar að NWSL deildin hófst á ný eftir langt hlé í gær. Leikmenn beggja liða klæddust einnig bolum merktum Black Lives Matter fyrir leik.

Bandaríska atvinnumannadeildin í fótbolta, NWSL, hófst á ný í gær en ekkert hefur verið spilað í deildinni síðan í mars. Í fyrsta leiknum mættust Portland Thorns, fyrrum lið Dagnýjar Brynjarsdóttur, og North Carolina Courage. Athygli vakti að leikmenn beggja liða krupu á meðan að þjóðsöngur Bandaríkjanna var spilaður. Þá voru leikmenn einnig í bolum merktum “Black Lives Matter” áður en leikurinn byrjaði. 

Í sameiginlegri yfirlýsingu frá liðunum kom fram að mótmælin væru til að berjast gegn kynþáttafordómum, lögregluofbeldi og misrétti á grundvelli kynþáttar. Þar kom einnig fram að leikmönnum þættu vænt um land sitt og vildu því nýta tækifærið til að gera meiri kröfur á bandarískt samfélag. 

Leikurinn í gær markaði einnig ákveðin tímamót þar sem þetta er fyrsta stóra íþróttadeildin sem fer af stað í Bandaríkjunum frá upphafi faraldursins sem varð til þess að öllum íþróttaviðburðum var frestað í mars. 

Úrslit leiksins voru þau að North Caroline Courage sigraði 2-1. 
Einn annar leikur í deildinni fór einnig fram í gær en þar sigraði Washington Spirit lið Chicago Red Stars 2-1. Fyrir þann leik klæddust leikmenn einnig Black Lives Matter bolum og krupu yfir þjóðsöngnum. 

Upphaf þess að krjúpa undir þjóðsöng Bandaríkjanna má rekja til Colin Kaepernick en hann byrjaði á því fyrir NFL tímabilið 2016 til þess að mótmæla lögregluofbeldi. Fleiri leikmenn hófu að taka þátt allt þar til að NFL deildin breytti reglunum á þann veg að nú er ólöglegt fyrir leikmenn að krjúpa yfir þjóðsöngnum. 

Tengdar fréttir

Íþróttir

Leikmenn í NFL sektaðir ef þeir krjúpa