Afbyggir ranghugmyndir og hundahatur Íslendinga

Mynd: Skjáskot / Rjómi

Afbyggir ranghugmyndir og hundahatur Íslendinga

28.06.2020 - 11:55

Höfundar

Heimildarmyndin um hundinn Rjóma og baráttu eiganda hans fyrir því að fá að flytja hann til Íslands er umhugsunarverð mynd að mati kvikmyndarýnis Lestarinnar, sem ögrar úreltri hugsun um samband manns og dýra.

Gunnar Theodór Eggertsson skrifar:

Rjómi er nýleg íslensk heimildamynd sem var sýnd hjá RÚV um helgina sem leið og verður aðgengileg í vefspilaranum fram til 21. júlí. Þar segir frá þrotlausri baráttu Hilmars Egils Jónssonar við íslenska kerfið til að fá leyfi fyrir því að flytja hundinn Rjóma heim til Íslands, en Hilmar var búsettur í Noregi þegar hann fékk Rjóma sem hvolp. Þeir félagar hlutu synjun frá Matvælastofnun árið 2012 en Hilmar neitaði að gefast upp, enda leit hann á Rjóma sem hluta af fjölskyldunni og tók ekki í mál að skilja hann eftir.

Kjarni málsins snýr að því að Hilmar fékk aldrei almennilegan rökstuðning á ákvörðun Matvælastofnunar og ákvörðunin að meina Rjóma aðgöngu inn í landið virðist vera reist á geðþótta, fordómum og vanþekkingu gagnvart hundategundinni English Bull Terrier. Leikstjórinn og dýralæknirinn Freyja Kristinsdóttir fylgir sögu Hilmars og Rjóma eftir og veitir áhorfendum innsýn í fimm ára baráttu. Samhliða þeirri frásögn afbyggir Freyja alls kyns ranghugmyndir um hundategundina og veltir upp alræmdu hundahatri Íslendinga á áratugum áður í von um að skilja hvers vegna hundur á borð við Rjóma getur valdið slíku fjaðrafoki í samfélaginu.

Ég var mjög ánægður með heimildamyndina Rjóma af ýmsum ástæðum, en kannski helst vegna þess hversu sjaldan sjónarhorn dýra birtist í slíkum myndum. Það gladdi mig að sjá íslenska mynd taka á sambandi mannfólks og annarra dýrategunda og ná að ræða stórt samhengi út frá lítilli sögu. Freyja gerir þetta bæði með því að skoða almenna umræðu og orðræðu í kringum hundakyn Rjóma og beina sjónum að séríslenskum fordómum eða hræðslu gagnvart hundum. Aðrir merkilegir fletir koma við sögu á meðan fimm ára biðstaða Rjóma er rannsökuð, s.s. samband eiganda og gæludýrs, tilfinningasamband sem ögrar í raun slíkri hópaskiptingu - þ.e. eiganda og eignar - vegna þess að dýrið er miklu meira en bara það, dýrið er hluti af fjölskyldunni og það er aðdáunarvert að hlusta á Hilmar tala um hundinn sinn og lýsa því yfir ósköp eðlilega að hann myndi aldrei skilja Rjóma eftir, frekar myndi hann sjálfur dvelja með honum í útlegð.

Annað málefni varðandi menn og dýr sem heimildamyndin dregur óbeint fram er spurningin um dýr sem einstaklinga og þá hugsun að hægt sé að smætta einstaklinginn niður í formfasta skilgreiningu út frá hugmyndum okkar um ákveðna tegund. Í umræðunni um mál Rjóma ber þetta iðulega á góma, þ.e. að líta þurfi á hann sem einstakling, að velta fyrir sér skapgerð hans og persónuleika, en ekki fella dóm yfir heila tegund og láta eins og öll dýr hagi sér eins, séu eins, séu forritun eðlisávísunar og ekkert meira. Heimildamyndin ögrar þannig úreltri hugsun um dýr og þótt myndin gangi ekki svo langt að taka inn aðrar dýrategundir en hundana, þá er hollt að velta fyrir sér hvaða önnur dýr fái að vera „einstaklingar" í samfélaginu og hvaða dýr séu almennt álitin einsleit og persónuleikalaus heild.

Margar slíkar hugsanir leituðu á mig á meðan á áhorfi stóð, enda er það vaninn þegar kastljósinu er beint að dýrunum: ótal spurningar og flækjur vakna og eflaust mun Rjómi kveikja samræður og vangaveltur hjá mörgum. Myndin sjálf er ekki gallalaus, hún er svolítið stirð á köflum, reiðir sig um of á löng viðtöl við eigandann og hefði auk þess gjarnan mátt leyfa okkur áhorfendum að kynnast Rjóma betur sem aðalpersónu, þótt vissulega sé talað mikið um hann út í gegn. En slíkir vankantar skipta litlu máli miðað við efnistökin og söguna sem er til staðar og ég vona að sem flestir gefi sér tíma til að kynna sér þetta merkilega mál og taki hundinum Rjóma fagnandi, því hann getur kennt okkur mannfólkinu ýmislegt.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Dæmdi tvisvar í sama máli – bannaði komu hundsins Rjóma

Engin slys á fyrsta hundadegi Kringlunnar

Kvikmyndir

Lífið eftir slysið hófst á þriðju lifrinni

Menningarefni

Óáreiðanlegur dans Jordan