Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Versnandi samkeppnishæfni vandi íslenskrar stóriðju

27.06.2020 - 14:31
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Lítil eftirspurn og lág verð gera þeim sem nú eru í kísilvinnslu erfitt um vik að sögn Einars Þorsteinssonar, forstjóra Elkem á Íslandi.

„Við erum að berjast og erum búin að vera með einn af þremur ljósbogaofnum stopp í mánuð til að mæta markaðsaðstæðum,“ segir hann.

Forsvarsmenn kísilversins PCC Bakka tilkynntu á fimmtudag að framleiðsla verði tímabundið stöðvuð og starfsfólki sagt upp. Bæði kísilverin sem risið hafa hér á landi undanfarin ár hafa þar með lent miklum erfiðleikum, en United Silicon varð gjaldþrota árið 2018 sama ár og PCC Bakki hóf starfsemi sína. 

Einar segir ekkert einfalt svar við því hvers vegna þetta gerist. Versnandi samkeppnishæfni sé þó undirliggjandi vandi íslenskrar stóriðju. Einn þáttur þess sé að raforkuverð hafi hækkað verulega hjá Elkem á síðasta ári. „Þetta var umtalsverð hækkun sem gerir okkur lífið leitt ofan á annað,“ bætir hann við og segir stóriðjuna eiga undir högg að sækja sem þriðja stoð íslenskt atvinnulífs.

Myndi ekki fara einn af stað með kísilver í dag

„Við erum búin að vera 40 ár í bransanum og þetta hefur gengið upp og niður í gegnum tíðina,“ segir hann. Aðstæðurnar sem hafi skapast vegna kórónuveirunnar séu þó óneitanlega fordæmalausar.

Algjör óvissa sé um markaði og hverju fram vindur enda veiran enn víða í vexti. „Við seljum til stálvera og þau eru núna á 30% afkastagetu og eins er lítið um opinberar framkvæmdir,“ útskýrir Einar og kveður alla þá sem selja hrávöru líkt og Elkem finna fyrir þessu.

Engu að síður sé Elkem með stórt og öflugt fyrirtæki á bak við sig í bransanum og það hjálpi til við að halda kísilverksmiðjunni gangandi þegar illa árar. „Ég mundi líklega ekki leggja af stað einn og sér með kísilver á Íslandi í dag,“ bætir Einar við.