
Verður að tryggja að fólk geti kosið
Greint var frá því í gær að um 300 manns sem eru í sóttkví eftir að knattspyrnukona í Breiðablik greindist með kórónaveiruna, muni ekki geta kosið.
Sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á fundi forsætisráðherra og Almannavarna í gær að reynt hafi verið að finna lausn á þessu en ekki tekist.
Að sögn Jóns Þórs er sýslumaður höfuðborgarsvæðisins þó að leita lausna svo fólk geti kosið í dag.
„Það verður að finna einhverja leið til að þetta gerist ekki aftur,“ segir Jón Þór. Sjálfur ræddi hann við dómsmálaráðherra í gær, sem einnig vill lausnir.
Jón Þór segir alls endis óvisst hvernig kórónafaraldurinn muni enda og minnir á að þingkosningar fari fram á næsta ári. „Ein sviðsmyndin er að þetta verði árvisst fyrirbæri ,“ segir hann um kórónaveiruna. „Þess vegna verðum við að tryggja lýðræðið og koma því þannig fyrir að fólk geti kosið.“
Fréttin hefur verið uppfærð.