Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stórkostleg tilfinning að kjósa í fyrsta skipti

Kinan Kadoni greiðir atkvæði í fyrsta sinn.
 Mynd: Aðsend
Íslendingar kjósa sér forseta í dag í níunda skipti og er kjörsókn á kjördag nú eitthvað minni en í síðustu kosningum. Einn þeirra 252 þúsunda sem eru á kjörskrá er Kinan Kadoni, Sýrlendingur sem fékk íslenskan ríkisborgararétt fyrir tveimur árum. 

Hann kaus í dag í fyrsta skipti og segir tilfinninguna frábæra. „Þetta er eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Það að geta gert þetta og hafa þá tilfinningu að maður geti haft áhrif er stórkostlegt,“ sagði Kinan í samtali við fréttastofu.

Kinan kaus á Blönduósi og deildi mynd af sér við kjörkassann með færslu á Facebook. Þar minnir hann á að lýðræði sé ekki sjálfsögð réttindi, heldur þurfi að hlúa að því, ástunda það og verja. „Þeir einu sem hafa valdið til að gera það er almenningur,“ segir Kinan í færslu sinni.

Ástandið í heimalandi hans Sýrlandi sé víti til varnaðar og skortur á lýðræði og mannréttindum hafi leitt til þeirra hörmunga sem þar hafi dunið yfir. „Þess vegna þurfti ég að fara og bíða þar til ég var 31 árs gamall til að öðlast réttinn til að kjósa. Þetta er ástæða þess að við ættum öll að kjósa. Daginn sem við missum þau réttindi er dagurinn sem við töpum frelsi okkar.“