Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sagði myndina af Guðna vera áróður á kjörstað

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Kjósandi nokkur á Hellu brást reiður við að sjá mynd af Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands á kjörstað. Starfsfólk kjörstaðarins brást snarlega við og fjarlægði myndina, en ekki voru allir kjósendur jafn sáttir við þá ákvörðun.

Kosið er í grunnskólanum á Hellu, sem hefur verið nýttur sem kjörstaður frá því skólinn var reistur. Á bogavegg í miðrými skólans hanga jafnframt uppi myndir af öllum forsetum lýðveldisins, þar með talið Guðna.

Helga Hjaltadóttir, formaður  kjörstjórnar í Rangárþingi ytra, segir fólk snúa baki í myndina þegar það kemur inn að kjósa. Fari það hins vegar sömu leið út aftur, í stað þess að ganga áfram í gegnum skólann blasa myndirnar við.

„Hann brást þannig við að þetta væri áróður,“ segir Helga. „Við vildum nú kannski ekki alveg samþykkja það því Guðni er jú forseti og hann er þarna í röð ásamt öðrum forsetum.“

Maðurinn hafi hins vegar orðið ansi reiður og þau hafi því  brugðist við og fjarlægt myndina. „Það voru reyndar kjósendur sem mótmæltu þessu, en við vildum ekki vera með nein læti.“

Hún segir myndina af Guðna fara aftur á sinn stað á veggnum á morgun. Ekki hefur áður verið gerð athugasemd við staðsetningu forsetamyndanna og hékk myndin af Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrrverandi forseta Íslands, uppi athugasemdalaust er hann var í framboði.

Helga segir atvikið ekki enn hafa verið tilkynnt til yfirkjörstjórnar. „En við veltum því fyrir okkur hvort þess væri þörf.“