Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Niðurstöðu að vænta úr nafnakosningu annað kvöld

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Kristján Þórisson - RÚV
Í nýju sveitarfélagi á Austurlandi greiddu kjósendur ekki aðeins atkvæði um forseta, heldur einnig um nafn á nýja sveitarfélaginu. 16 ára og eldri íbúar Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar fengu að kjósa um nafn á sveitarfélaginu, auk erlendra ríkisborgara sem hafa kosningarétt í sveitastjórnarkosningum. Atkvæði úr nafnakosningunni verða talin seinni partinn á morgun.

Kjósendur höfðu úr sex nöfnum að velja og var boðið upp á raðval, það er að merkja 1 við það nafn sem kjósendur vildu helst og 2 við það sem þeim leist næst best á. 112 tillögur með 62 hugmyndum bárust á sínum tíma og fóru sautján þeirra til umsagnar hjá Örnefnanefnd. Nöfnin sex sem íbúar nýja sveitarfélagsins fengu að velja úr eru:

  • Austurþing
  • Austurþinghá
  • Drekabyggð
  • Múlabyggð
  • Múlaþing
  • Múlaþinghá

Nafnanefnd kemur saman ásamt aðstoðarfólki klukkan 16:00 á morgun og telur atkvæðin. Búist er við því að talningu ljúki snemma annað kvöld. Niðurstöður kosninganna verða ekki bindandi, og mun ný sveitarstjórn taka ákvörðun um nýtt heiti þegar hún kemur til starfa í október.