Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Merkileg mynd þó tónninn flökti um víðan völl

Mynd: Netflix / Da 5 Bloods

Merkileg mynd þó tónninn flökti um víðan völl

27.06.2020 - 09:33

Höfundar

Kvikmyndarýnir Lestarinnar segir Da 5 Bloods eftir Spike Lee virka bæði sem heimildamynd og skáldskapur og sé gerð af leikstjóra sem hefur góð tök á efninu. Fyrst og fremst er hún þó kvikmynd sem er í sterku sambandi við sinn eigin samtíma og lifandi heimild.

Gunnar Theodór Eggertsson skrifar:

Nýjasta kvikmynd bandaríska leikstjórans Spike Lee, Da 5 Bloods, var frumsýnd á Netflix fyrr í mánuðinum og tímasetningin sérstaklega góð, því myndin er áhrifaríkt innslag í mótmæli og réttindabaráttu svartra Vestanhafs og víðar um heim um þessar mundir, og Lee minnir enn og aftur á hvað hann er róttækur og snjall leikstjóri. Myndin er marglaga og umfjöllunarefnið fordómar, misrétti og flókin staða svartra í Bandaríkjunum á ólíkum tímum. Da 5 Bloods er samtímasaga sem tvinnar saman hitamálum dagsins í dag og sjaldséðri sögu svartra hermanna í Víetnam-stríðinu. Lee beitir svipaðri nálgun og hann hefur gert áður með því að flétta raunverulegu fréttaefni saman við skáldskapinn, bæði frá tímum Víetnamstríðsins og nýjar upptökur frá Bandaríkjum Trumps forseta, og staðsetur Da 5 Bloods annars vegar í skýru sögulegu samhengi - allt aftur til fyrstu þrælanna árið 1619 - og hins vegar í samhengi við samtímann, t.a m. á afar skýran hátt við Black Lives Matter hreyfinguna. Lee miðlar þekkingu sinni á sögunni á lifandi og frumlegan hátt og leikur sér að því að blanda saman stílbrögðum, eins og hans er von og vísa, svo myndin verður jafnframt sneiðmynd af réttindabaráttu svartra í gegnum aldir og áratugi og uppfræðandi hasarmynd um gamla vini í leit að glötuðum tíma.

Sagan er einföld í eðli sínu: Fjórir félagar og fyrrum hermenn úr Víetnam halda aftur á vígvöll fortíðarinnar í leit að jarðneskum leifum gamla liðþjálfans þeirra, Stormin' Norman, leikinn af Chadwick Boseman. En félagarnir búa jafnframt yfir leyndarmáli, því þeir eru líka í fjársjóðsleit, á höttunum eftir gulli sem þeir grófu í frumskóginum á sínum tíma. Frásögnin heldur sig mestmegnis í samtímanum en veitir áhorfendum einnig innsýn í fortíðina með atriðum sem sýna vinina í stríðinu - þar sem sömu leikararnir leika sjálfa sig unga án nokkurra tilrauna til að hylja aldurinn, enn eitt dæmið um sjálfsmeðvitaða sviðsetningu Lees á kvikmyndaforminu. Ferðalagið til Víetnam reynir á vinskapinn og í leiðinni notar Lee söguna til að velta upp alls kyns erfiðum spurningum, s.s. hvað varðar áhrif stríðsins á Víetnam samtímans, stöðu svartra hermanna sem börðust fyrir land sem beitti þá sjálfa óréttlæti og hversu mikið eða lítið hefur breyst í þeim málum á áratugunum eftir stríð. Hlýðum á stutt brot úr Da 5 Bloods, þegar útvarpskonan Hannoi Hannah færir hermönnum fréttir af morðinu á Martin Luther King árið 1968:

Í myndbrotinu má sjá upptökur af leikkonu í hlutverki Hannoi Hönnuh blandað saman við fréttaupptökur af Dr King, útförinni hans, mótmælum í kjölfarið, og svo andlit vinanna í frumskóginum að melta fréttirnar - með öðrum orðum er atriðið afar myndrænt og lýsandi fyrir Da 5 Bloods á heildina litið, því þetta er sjónræn og sterk kvikmynd, full af uppreisnaranda og mikilvægum hugmyndum. Hún er jafnframt stútfull af tilvísunum, bæði í söguleg efni og mál, en ekki síður aðrar kvikmyndir, og líklega eru Apocalypse Now! og Treasure of the Sierra Madre augljósustu dæmin, þótt manni verði ekki síður hugsað til Dead Presidents og Three Kings. Fyrirferðamestar eru upptökurnar sem hann klippir saman við framrás sögunnar sem virka misvel, sumar eiga til að hljóma fullmikið eins og kennslustund á skólabekk, en öðrum stundum ná bútarnir að harmónera vel við meginþráðinn og færa áhorfið upp á hærra plan.

Heildaráhrifin eru hins vegar þau að tónn myndarinnar fer alveg út um víðan völl, sem er vissulega ákveðið einkenni á frásagnartækni Lees, og virkar vel í fyrri hluta myndarinnar sem nokkurs konar samræðutónn á milli leikstjóra, persóna og áhorfenda, en eftir því sem á líður færist sagan meira út í hefðbundna hasarmynd sem byggir því á hefðbundinni innlifun áhorfenda til að ganga upp. Þar verða stílbrögðin frekar að hindrun, innskotin verða truflandi og flöktandi tónninn drepur niður alla spennu. Ég vildi eiginlega að Lee hefði sleppt því að ganga svona langt með spennusöguna, slakað á gullæðinu og Sierra Madre fjársjóðnum, og haldið þræðinum frekar í karakterstúdíu vinahópsins óháð byssubardögum og slagsmálum, því ég missti jafnt og þétt athyglina í síðari hlutanum.

Mig grunar líka að raunverulegar fréttamyndir af ofbeldi og útrýmingu hafi haft þau áhrif að þegar kom að sviðsettu ofbeldi kvikmyndarinnar gat ég ómögulega tekið það alvarlega, því ég var nýbúinn að sjá alvöru upptökur af aftöku í stríði. Mögulega er sú togstreita framsett af sömu sjálfsmeðvitund og Lee sýnir annars staðar, en mér þótti hasarinn í seinni hlutanum taka sig það alvarlega að ég á erfitt með að trúa að sú sé raunin.

En þrátt fyrir tónaflökt og truflanir þá er Da 5 Bloods merkileg mynd, full af grípandi og góðum senum, skipuð stórgóðum leikurum og þá ber sérstaklega að nefna Delroy Lindo sem stelur alveg myndinni. Þetta er reglulega áhugavert dæmi um kvikmynd sem sækir áhrif í ólíkar áttir, virkar á köflum sem bæði heimildamynd og skáldskapur, gerð af leikstjóra sem hefur góð tök á efninu, og er kannski fyrst og fremst mynd sem er í sterku sambandi við – og lifandi heimild um – sinn eigin samtíma.

Tengdar fréttir

Þessi rokkuðu rauða dregilinn

Kvikmyndir

Óvægin gagnrýni á hvíta kynþáttahyggju

Kvikmyndir

Reitti Trump til reiði og gagnrýndi sigurmynd

Sjónvarp

Spike Lee bætir fyrir 30 ára gömul mistök