Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Margir þurfa í sóttkví í dag vegna Stjörnuleikmanns

27.06.2020 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra segir líklegt að margir þurfi að fara í sóttkví í dag vegna leikmanns Stjörnunnar sem greindist með kórónuveirusmit í morgun. Smitið er talið tengjast leikmanni Breiðabliks sem kom frá Bandaríkjunum 17. júní. Sýni hans á landamærunum var neikvætt en hins vegar fór hann aftur í sýnatöku á miðvikudaginn og það reyndist jákvætt.

Víðir Reynisson segir að á þriðja hundrað sýni hafi verið tekin í gær þeirra á meðal úr leikmanni Stjörnunnar. Niðurstaðan kom í morgun. Í gær greindist ráðuneytisstarfsmaður með smit sem tengist Breiðabliksleikmanninum.

„Smitrakning er í gangi en það virðist vera að þessi þrjú smit tengist, sem við höfum fengið núna á síðustu dögum.“

Af þessu eina nýja smiti er þá væntanlega smitrakning skammt á veg komin þannig að ekki er ljós hve margir þurfa að fara í sóttkví til viðbótar?

„Já, við erum bara nýbúin að fá grunnupplýsingarnar frá viðkomandi þannig að smitrakningin er bara rétt að hefjast.“

Það eru fleiri að fara í sýnatöku í dag og væntanlega heldur áfram eitthvað ef að þessi viðkomandi leikmaður hefur haft samskipti við marga?

„Já, já, það eru líkur á því að það séu margir sem að þurfa að bætast við á lista þeirra sem þurfa að fara í sóttkví í dag í tengslum við þetta,“ segir Víðir.