Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Leikmaður Stjörnunnar greindur með COVID-19

27.06.2020 - 00:51
Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV
Leikmaður efstudeildarliðs Stjörnunnar í knattspyrnu hefur greinst með COVID-19. Næstu skref verða tekin í nánu samstarfi við Almannavarnir og KSÍ, að sögn Sigurðar Þórðarsonar, skrifstofustjóra félagsins.

Æfingasvæði félagsins í Garðabæ verður sótthreinsað á morgun og því falla allar æfingar niður.

Ekki hefur enn verið ákveðið að fresta leik 3. flokks kvenna gegn Breiðabliki á morgun.

Forráðamenn Stjörnunnar funda með Almannavörnum og KSÍ í fyrramálið og þá verða teknar ákvarðanir um næstu skref.

Þá verður ákveðið hvort leikur Stjörnunnar gegn KA í Pepsi Max-deild karla verði spilaður á sunnudaginn. Nánari fregna er beðið af málinu.

Yfirlýsing UMF Stjörnunnar: 

„Nú í kvöld bárust fregnir af því að leikmaður karlaliðs Stjörnunnar í knattspyrnu er smitaður af Covid-19. Sökum þess hefur verið ákveðið að allar æfingar sem fara áttu fram á svæði knattspyrnudeildar Stjörnunnar á morgun falla niður þar sem starfsmenn félagsins munu sótthreinsa félagsaðstöðuna. Umf Stjarnan mun vinna náið með Almannavörnum og KSÍ á næstu klukkutímum og kappkosta við það að koma frekari upplýsingum á framfæri þegar að þær liggja fyrir.”