Leik í 3.deild karla frestað – beðið eftir smitrakningu

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Leik í 3.deild karla frestað – beðið eftir smitrakningu

27.06.2020 - 10:25
Búið er að fresta leik KFG og Ægis sem átti að fara fram í 3. deild karla í dag en þetta kemur fram á vef Knattspyrnusambands Íslands.

Fimm leikir voru fyrirhugaðir í 3. deild karla í dag en samkvæmt vef KSÍ er búið að fresta einum þeirra, leik KFG og Ægis sem átti að fara fram á Samsung vellinum í Garðabæ. Ekki hefur verið tilkynnt um ástæður frestunarinnar en á fótbolti.net kemur fram að einhverjir leikmenn KFG gætu þurft að fara í sóttkví og nú sé beðið eftir niðurstöðum smitrakningarteymisins. 

Leikmaður karlaliðs Stjörnunnar greindist með COVID-19 smit í gær og í tilkynningu frá félaginu kemur fram að allar æfingar falli niður í dag á meðan að svæðið er sótthreinsað. Lið KFG spilar einnig á heimavelli Stjörnunnar í Garðabæ. 

Fjórum leikjum í efstu deild kvenna hefur þegar verið frestað eftir að COVID-19 smit kom upp á leikmanni Breiðabliks og enn á eftir að taka ákvörðun um frestun hjá karlaliði Stjörnunnar en liðið á leik gegn KA á morgun. 

Tengdar fréttir

Innlent

Leikmaður Stjörnunnar greindur með COVID-19

Fótbolti

Leikjum hjá Breiðabliki og KR frestað vegna smitsins

Innlent

Þurfa að ræða við um 300 manns vegna smits í Breiðablik