Kosið með óvenjulegum hætti í sóttkví

27.06.2020 - 16:16
Fyrsti kjósandinn kýs í sérstakri kjördeild fyrir fólk í sóttkví. - Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd / RÚV
Atkvæðagreiðsla fólks sem er í sóttkví hófst á bílastæði Sýslumannins á höfuðborgarsvæðinu á fjórða tímanum í dag. Fólk sem hefur verið sett í sóttkví síðustu daga hefur þann kost að fara eitt í bíl sínum á bílastæðið í Hlíðarsmára í Kópavogi og greiða þar atkvæði. Búið er að setja upp skilrúm þar sem hægt er að keyra bílum inn. Fólk gerir grein fyrir sér og segir hvern það vill kjósa. Starfsmaður stimplar kjörseðil og sýnir kjósanda til staðfestingar. Að því loknu ef atkvæðið sett í kjörkassa.

Þar sem fólk er í sóttkví má það ekki nálgast annað fólk. Til að bregðast við því verður fólk að hafa allar rúður bílsins uppi. Það verður því að sýna skilríki og tjá sig við starfsmann sýslumanns í gegnum rúðuna, ekki má skrúfa hana niður.

Fyrstu bílarnir voru komnir á bílastæðið upp úr klukkan þrjú. Í þeim var fólk sem ætlaði að nýta tækifærið og kjósa. Það varð þó að bíða aðeins meðan unnið var að því að koma upp aðstöðunni. Nokkur röð myndaðist en fyrir klukkan fjögur komst fyrsti kjósandinn að og svo hver á fætur öðrum.

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Kjörkassinn í nýju og óvenjulegu kjördeildinni.

Hörð viðbrögð

Fjöldi fólks hefur þurft að fara í sóttkví síðustu daga eftir að ný smit hafa greinst hér innanlands. Í gær leit út fyrir að þetta fólk gæti ekki greitt atkvæði í forsetakosningunum í dag. Það vakti harð viðbrögð. Jón Þór Ólafsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, gagnrýndi stöðuna sem var komin upp. Starfsfólk Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dómsmálaráðuneytisins, yfirkjörstjórna og almannavarna fór af stað að leita lausna svo hægt væri að tryggja að fólk gæti kosið. Það gekk eftir á þriðja tímanum og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra tilkynnti að lausn væri fundin.

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Biðröð á kjörstað.
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi