Íslendingar kjósa sér í dag forseta í níunda sinn í sögu lýðveldisins. Valið stendur á milli núverandi forseta Guðna Th. Jóhannessonar og Guðmundar Franklíns Jónssonar.
Ríflega 252 þúsund manns eru á kjörskrá og höfðu í gær hátt í 54 þúsund kosið utan kjörfundar, sem er nýtt met.
Í Reykjavík opna kjörstaðir klukkan níu og eru opnir til tíu í kvöld, en reglum samkvæmt ber að opna kjörstaði á milli níu og tólf á kjördag.
Kanna má á vefsíðum sveitarfélaga og stjórnarráðsins hvenær kjörfundur hefst í hverju kjördæmi. Almennt skal kjörfundur standa til kl. 22 en kjörstjórnir geta ákveðið að hætta fyrr, eftir aðstæðum.
Búist er við að fyrstu tölur muni berast um hálf ellefu í kvöld. Á RÚV verður fylgst með kosningunum í útvarpi, sjónvarpi og vefnum.