Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Hljóðguð með mörg hliðarsjálf

Mynd: Hermigervill / Aldrei fór ég suður

Hljóðguð með mörg hliðarsjálf

27.06.2020 - 11:54

Höfundar

Tónlistarmaðurinn Hermigervill sá um hljóðhönnun og tónlistarsköpun fyrir snjallsímatölvuleikinn Trivia Royale sem fyrirtækið Teatime gaf út á dögunum.

Sveinbjörn Thorarensen, betur þekktur sem Hermigervill, kemur eggjum sínum fyrir í hinum ýmsu körfum. Hann semur og vinnur tónlist undir eigin listamannsnafni en tekur einnig að sér ýmis önnur verkefni, svo sem tölvuleiki og auglýsingar þar sem misjafnt er hvort hans nafn komi fram. 

„Ég eiginlega veit ekki lengur hvað er mín „venjulega tónlist,“ segir Sveinbjörn. „Ég er með mörg hliðarsjálf sem enginn veit af, sem við munum aldrei tala um.“ 

Hann er þó til í að tala um vinnuna fyrir Teatime, sem spratt úr tæknifyrirtækinu Plain Vanilla, en líta má á tölvuleikinn Trivia Royale sem einskonar arftaka spurningaleiksins Quiz Up sem Plain Vanilla gaf út. Sveinbjörn samdi einmitt tónlistina fyrir þann leik líka en hann segir þó talsverðan mun á verkefnunum, ekki síst þar sem meiri spenna er byggð inn í nýja leikinn. Spenna sem magnast eftir því sem leikmaðurinn nær lengra.

„Þannig að þá erum við kannski með sama tónlistarmótíf, en svo því lengra sem þú kemst þá er meira „action“ í laginu. Kannski sama melódía en meiri taktur og „loopast“ líka aftur.“

En Sveinbjörn sér ekki bara um tónlistina. Hann sér líka um öll hljóð í leiknum, hljóð sem fáir hugsa út í að einhver þurfi að „búa til“. 

„Ég myndi segja að jafnvel þó þetta sé, skulum við segja, „einfalt“ app, þá erum við að tala um kannski 70-80 „sound“-effekta sem ég geri frá grunni,“ segir Sveinbjörn og gefur nokkur hljóðdæmi um smelli sem hann gerir með munninum og getur svo teygt til með þar til gerðum forritum. Hann notast til að mynda við tónlistarforritið Reaper sem hann segir eitt mesta nörda-forritið.

„Mér líður stundum eins og ég sé bara svona hljóðguð.“

Tengdar fréttir

Tónlist

Hermigervill í heimaútgáfu AFÉS - Ibizafjörður

Tónlist

Sykur og svanasöngur Grísalappalísu stóðu upp úr

Tónlist

Hermigervill býður gleðileg hvít þeramínjól

Innlent

Plain Vanilla ævintýrið frá upphafi til enda