Fólk í sóttkví fær að kjósa gegnum bílrúðu

27.06.2020 - 15:10
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Kjósendum sem eru í sóttkví vegna hugsanlegs kórónuveirusmits gefst kostur á að kjósa í tjaldi á bílastæði við skrifstofu Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í Hlíðasmára í dag. Fólk verður að koma þangað eitt í bíl og fær þá aðstoð við að greiða atkvæði. Gengið var frá þessu í dag. Unnið er að því að setja upp aðstöðuna og verður hægt að kjósa þar til hálf sjö í kvöld.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir að með þessu sé komið til móts við fólk sem er í sóttkví og getur því ekki farið á hefðbunda kjörstaði. „Við vorum að reyna að finna lausn sem gæti gengið í dag á kjördag fyrir þennan stóra hóp. Við bjóðum upp á það að fólk geti kosið á bílaplani við Hlíðasmára í Kópavogi með því að koma inn á bílnum sínum inn í tjaldkjörklefa og fá aðstoð við að kjósa án þess að snerta kjörgögnin.“

Fólk verður verður að koma á bíl, verður að vera í honum og má ekki opna glugga. Starfsmaður kjörstjórnar veitir aðstoð við að ganga frá atkvæðinu. Kjósandi segir í gegnum rúðuna hvað hann hyggst kjósa og starfsmaður kjörstjórnar gengur frá atkvæðinu. Þetta er með sama hætti og hefur mátt aðstoða fólk sem ekki sér eða getur ekki sjálft fyllt út kjörseðilinn.

Áslaug Arna segir að tryggja hafi þurft að farið yrði að sóttvarnarreglum og einnig lögum um framkvæmd kosninga. „Einnig þarf auðvitað að tryggja leynd og annað slíkt. Það er uppfyllt með þessum skilyrðum að þú komir einn í bíl og fáir aðstoð í gegnum gluggann án þess að opna hann, hvernig þú kýst.“

Fréttin var uppfærð 15:30.

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Fyrstu væntanlegu kjósendur í sóttkví voru mættir upp úr klukkan þrjú en aðstaðan var ekki tilbúin.
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi