Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Færri kjósa á kjördag nú en í síðustu forsetakosningum

Mynd með færslu
 Mynd: AP Images - RÚV
Kjörsókn hefur verið heldur minni það sem af er kjördegi en á sama tíma í síðustu forsetakosningum. Á móti kemur að fleiri kusu utan kjörfundar þetta árið en nokkru sinni áður.

Íslendingar kjósa sér forseta í dag í níunda sinn í sögu lýðveldisins. Valið stendur á milli núverandi forseta Guðna Th. Jóhannessonar og Guðmundar Franklíns Jónssonar. Ríflega 252 þúsund manns eru á kjörskrá og höfðu í gær hátt í 54 þúsund kosið utan kjörfundar, sem er nýtt met.

Í öllum sex kjördæmum hefur kjörsókn verið ívið minni á kjördag en í forsetakosningunum 2016.

Klukkan þrjú í dag höfðu 33,5% þeirra sem eru með kosningarétt í Norðvestur kjördæmi greitt atkvæði. Á Suðurlandi höfðu 9.708 kosið, eða 25,94% og er það heldur lakara en 2016 þegar hlutfallið var 30,56%. Að sögn Þóris Haraldssonar, formanns yfirkjörstjórnar á Suðurlandi er þetta um 4,5% minna nú. Hann bendir á að vissulega hafi margir kosið utan kjörfundar, en segir  töluverðan fjölda kjósenda líka hafa gert það árið 2016.

Í Suðvesturkjördæmi höfðu 16.316 kosið klukkan þrjú í dag eða 22,4 % þeirra sem eru með kosningarétt. Á sama tíma árið 2016 höfðu 29,2% greitt atkvæði.

Í Reykjavíkurkjördæmunum norður og suður voru 18,46% og 19,86% búin að greiða atkvæði klukkan 14 og er það um þremur prósentum minna en í síðustu forsetakosningum. Þá höfðu 21,79% greitt atkvæði í Reykjavík norður og 22,6% í Reykjavík suður. Að sögn Erlu S. Árnadóttur, formanns yfirkjörstjórnar í Reykjavík norður kusu hins vegar umtalsvert fleiri utan kjörfundar nú.

Ekki hafa verið tekin saman atkvæði á Norðausturlandi, en á Akureyri höfðu klukkan þrjú 4.051 þeirra 14.138 sem eru á kjörskrá greitt atkvæði sem er 28,65% þeirra sem eru á kjörskrá. Segir Gestur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi þetta um 2-3% minna en 2016.

Anna Sigríður Einarsdóttir