Brugðist hratt við án þess að eyða fé fyrirhyggjulítið

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Stjórnvöld fóru meðalveg þess að bregðast hratt og vel við efnahagsáföllum COVID-19 án þess að sprauta peningum fyrirhyggjulítið hvert á land sem er, segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka. Hann segir að þetta sé í raun fyrsta samdráttarskeiðið sem Íslendingar hafi búið sig vel undir.

Hagstofan birti í gær spá sína um að hagkerfi Íslands dragist saman um 8,4 prósent á þessu ári. Það er mesti samdráttur sem orðið hefur á lýðveldistímanum. Á næsta ári er spáð 4,9 prósenta hagvexti. Jón Bjarki  sagði í Vikulokunum á Rás 1 að horfur á heimsvísu væru heldur að versna. Samanber að spá Alþjóða gjaldeyrissjóðsins hefur versnað úr þriggja prósenta samdrætti á heimsvísu í fimm prósent. „En það er auðvitað að koma á daginn að það er að teygjast á þessu öllu saman og við erum farþegar á þeirri lest,“ sagði Jón Bjarki.

Hér virtist hafa tekist vel að dempa faraldurinn án þess að stöðva efnahagslífið alveg, sagði Jón Bjarki. „Svo auðvitað hitt að stjórnvöld hafa, allavega að mínu mati, líka farið þennan meðalveg milli þess að bregðast hratt og vel við án þess að í rauninni sprauta peningum fyrirhyggjulítið hvert á land sem er.“

Ferðaþjónustan varð fyrir miklu áfalli vegna farsóttarinnar. Á sama tíma glíma álver og kísilver við vanda og veiðiheimildir hafa verið skornar niður. „Þetta er í raun fyrsta samdráttarskeiðið sem við bárum gæfu til að búa okkur vel undir,“ sagði Jón Bjarki. Skuldastaða ríkisins hafi verið góð og heimilin betur undir það búin að taka á sig tímabundinn skell við atvinnumissi. „Og sama er með fyrirtækin. Það var ekki komið þetta dómínó af skuldsettum eignarhaldsfélögum sem áttu í skuldsettum fyrirtækjum sem felldi stóran hluta atvinnulífsins og nær allt fjármálakerfið um koll fyrir áratug.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi