Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Björk fagnar íslensku samstarfsfólki í Eldborg í ágúst

Mynd: Santiago Felipe / Björk

Björk fagnar íslensku samstarfsfólki í Eldborg í ágúst

27.06.2020 - 08:52

Höfundar

Björk kemur fram á þrennum tónleikum á Íslandi í ágúst til að fagna samstarfi sínu við íslenskt tónlistarfólk. Tónleikarnir verða í Eldborgarsal Hörpu. Þeir fyrstu sunnudaginn níunda ágúst með Hamrahlíðarkórnum, svo 15. með strengjasveit úr Sinfóníuhljómsveit Íslands, og sunnudaginn 23. ágúst með blásarasveit úr Sinfóníunni og flautuseptettinum Viibra.

Björk segir að hugmyndin að tónleikunum á Íslandi hafa blundað í sér lengi. „Ég var að vinna að þessari útsetningabók með Jónasi Sen í örugglega tíu ár. Svo kom hún út fyrir 2-3 árum og þá hjálpaði hann mér að gera svona píanóútsetningar að þeim. Mig langaði alltaf að gera tónleikaröð út frá þessari bókaútgáfu.“ Það hafi svo legið beinast við halda tónleikana á Íslandi því langflestir sem hafi spilað þessar útsetningar væru Íslendingar

„Verkalýðsforinginn hann faðir minn kom kannski aðeins í gegn um mig, ég vildi líka styðja hljóðfæraleikara. Því oft ef það kemur eitthvað hræðilegt upp á þá er hóað í hljóðfæraleikara og þeir eiga að gefa vinnuna sína. Það sem hefur verið að gerast á síðustu tíu árum er að hljóðfæraleikarar fá ekki lengur neinn pening úr plötusölu, allt verður frá því að túra. En svo eiga þeir líka að spila ókeypis á netinu,“ segir Björk sem hyggst gefa allan ágóða af tónleikunum, eftir að búið er að greiða hljóðfæraleikurum, til góðgerðamála, meðal annars Kvennaathvarfsins.

Mynd með færslu
 Mynd: Santiago Felipe - Björk

Björk hefur áhyggjur af þverrandi tekjum hljóðfæraleikara. „Ef þú ætlar að vera tónlistarmaður og borga húsaleiguna þarftu bara að túra árið um kring bara alltaf. Þetta getur verið ofsalega tætandi, eins og það er gaman að túra.“ Á tónleikunum í ágúst verður mjög ólík dagskrá, en lögin eru valin eftir því hversu vel þau henta samstarfsfólkinu í hvert sinn, hvort sem það er kór, strengir eða blástursveit. Á tónleikunum með strengjasveitinni verða til að mynda mörg lög af plötunum Vespertine og Dancer in the Dark, en á fyrstu tónleikunum með Hamrahlíðarkórnum verða Medulla, Biophilia og Utopia í brennidepli. „Svo ætlum við að bæta við fjórðu tónleikunum ef miðasalan gengur vel, fyrir 15 manna strengjasveit. Þá myndum við flytja lög af Vulnicuru og Homogenic kannski.“

Lagalistinn fyrir tónleikana var negldur niður í síðustu viku og Björk segir hljóðfæraleikarana þegar byrjaða að æfa sig. „Svo byrja ég að æfa með þeim í lok júlí.“ Björk hefur útsett mest allt sitt efni sjálf þó það sé ekki á margra vitorði. Hún segist lengi vel ekki hafa úttalað sig um jafnrétt og femínisma. „Ég kannski var svolítið mikið að reyna að ekki kvarta og kveina, heldur að gera.“ Hún hafi hins vegar ákveðið að tjá sig opinberlega eftir að hafa verið hvött til þess af mörgum ungum konum sem settu sig í samband við hana á netinu, einkum um tvennt. „Í fyrsta lagi að segja frá minni reynslu í kvikmynd [Dancer in the Dark] í #metoo-bylgjunni. Það var erfitt en nauðsynlegt, við þurftum allar að gera það saman.“ Í öðru lagi með því að minna á að hún er sjálf upptökustjóri á megninu af sinni eigin tónlist. „Allt sem ég hef gefið út frá fyrstu plötunni minni Debut hef ég annað hvort pródúserað eða co-pródúserað. Ég hef gert allar útsetningar, spila mikið á synþesæsera, og er alltaf viðstödd í hljóðblöndun og masteringu. Hver einasti hlutur sem gerist á hverju stigi plötunnar, ég er viðstödd.“

Mynd með færslu
 Mynd: Santiago Felipe - Björk

Hún segist hafa fengið mikil viðbrögð frá stelpum í raftónlist og upptökutækni sem þakki henni fyrir að tjá sig opinskátt um þetta. „Ég held líka bara að fólk hafi ekki getað ímyndað sér kona sitja við hljóðborð og snúa tökkum og ýta sleðum.“ Tónleikarnir verða eins og áður segir í Eldborg en þeim verður líka streymt á netinu. Eftir tónleikana verður svo boðið upp á veitingar til styrktar Kvennaathvarfinu. „Ég hlakka til njóta þess besta sem við Íslendingar höfum. Það góða við kórónuvírusinn er að maður lærir að meta hvað við erum með æðislegt tónlistarhús, æðislega hljóðfæraleikara. Við getum labbað eða tekið strætó á tónleika og verið græn og sæt og stutt gott málefni.“

Tengdar fréttir

Tónlist

Breskir blaðamenn agndofa yfir stórtónleikum Bjarkar

Tónlist

Íslenskt listafólk í stafrænu leikhúsi Bjarkar

Popptónlist

Magnað myndband frá Björk við Tabula Rasa

Popptónlist

Þegar eltihrellir sendi Björk sprengju