Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Allir eigi að njóta grundvallarlýðræðisréttinda

Mynd með færslu
 Mynd:
Allt útlit er fyrir að 300 einstaklingar sem eru í sóttkví vegna Covid-19 geti ekki kosið í forsetakosningum á morgun.

„Það eru lög í landinu sem eiga að vernda almenna borgara fyrir þessari sótt,” segir Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í samtali við fréttastofu.

Hann segir að vitaskuld eigi allt fólk að geta notið grundvallarlýðræðisréttinda, jafnvel þótt það sé veikt. Svo spyr hann hvort ekki hafi verið gert ráð fyrir því að þessi staða gæti komið upp við kosningarnar, og ef ekki þá hvers vegna það hafi ekki verið gert.

Grundvallaratriði nú sé að sjá til þess að svona lagað endurtaki sig ekki. Jón Þór kveðst hafa rætt við dómsmálaráðherra sem vilji lausnir. Hann hefur sömuleiðis kallað eftir fundi í nefndinni til að tryggt verði að fólk sé ekki svipt kosningarétti vegna veikinda.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er ábyrg fyrir eftirliti með framkvæmd kosningalaga og að sögn Jóns er það nefndarfólk sem hann hefur náð í sammála um virða beri kosningaréttinn.

Jón Þór er sömuleiðis harðorður í garð sýslumanns höfuðborgarsvæðisins sem að hans sögn hafi lofað að gefa svar fyrir klukkan 21 í gærkvöldi um hvort hægt verði að leysa málið. Það hafi sýslumaður ekki gert. Jón Þór segir það ekki boðlegt.