Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Áhugavert að sjá hvernig lýðhyggja gengur í Íslendinga

27.06.2020 - 22:52
Mynd: Skjáskot / RÚV
Stefnuáherslur Guðmundar Franklíns Jónssonar í kosningabaráttunni voru í anda popúlískra eða lýðhyggjuhreyfinga austan hafs og vestan, segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði. Hann segir að það sé því áhugavert að sjá hvernig málflutningur Guðmundar gengur í Íslendinga.

Þetta sagði Ólafur í kosningasjónvarpi RÚV í kvöld þegar búið var að birta fyrstu tölur úr tveimur kjördæmum. „Þetta er í algjöru samræmi við kannanirnar ennþá,“ sagði Ólafur þá. Ekki urðu miklar breytingar þegar tölur bættust við úr þriðja kjörtímabilinu. 

„Það kom greinilega fram í kosningabaráttunni að stefnuáherslur Guðmundar eru mjög í anda popúlískra hreyfinga eða lýðhyggjuhreyfinga vestan hafs og austan en slíkar hreyfingar hafa eins og menn vita fengið aukið fylgi síðastliðin ár.“ Ólafur sagði að margir teldu að lýðhyggja eða popúlismi væri uppnefni en fyrir stjórnmálafræðinga væri það merkimiði, eins og til dæmis sósíalismi, og kapítalismi.

Ólafur Þór sagði að eitt kennimerki lýðhyggjuhreyfinga væri að skipta þjóðinni upp í almenning og elítu. „Ef þeir segja oft elítan ferðu að hugsa: kannski eru þeir í þessum hópi.“ Einnig væri andstaða við Evrópusambandið algeng með lýðhyggjuflokkum. Þetta passaði við málflutning Guðmundar Franklín en ekki hefði borið á

„Þess vegna er einkanlega áhugavert að sjá hvernig þessi málflutningur gengur í Íslendinga og líka að sjá hvort þessi málflutningur Guðmundar, þessi lýðhyggja, hvort að hún tengist með einhverjum skýrum þætti einhverjum öðrum þáttum í íslenskri pólitík.“