Vonar að aðgerðir skili sér í kraftmeiri viðspyrnu

26.06.2020 - 11:59
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra vonar að aðgerðir stjórnvalda skili sér í kraftmeiri viðspyrnu en gert er ráð fyrir í nýrri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem birt var í morgun. Samkvæmt henni dregst verg landsframleiðsla saman um 8,4 prósent í ár. Það er mesti samdráttur sem orðið hefur á lýðveldistímanum.

Spá Hagstofunnar nær til fimm ára frá 2020 til 2025. Samdrátturinn er rakinn til kórónuveirufaraldursins sem hefur haft mikil áhrif á ferðaþjónustuna. Gert er ráð fyrir að í ár dragist einkaneysla saman um 6,1 prósent, útflutningur um 30% og atvinnuleysi nái sögulegu hámarki, verði að jafnaði 8,2 prósent í ár. Horfur eru á að þjóðarútgjöld dragist saman um 4,4 prósent í ár en um 4,3 prósent 2021. Búist er við að halli á ríkissjóði í ár verði 300 milljarðar króna.

Strax á næsta ári er reiknað með snörpum viðsnúningi og að vöxtur landsframleiðslunnar verði 4,9 prósent. Næstu ár verði hagvöxtur á bilinu 2,5 til 2,9 prósent, einkaneysla aukist um 5,5 prósent, atvinnuleysi verði 6,8 prósent og útflutningur aukist um 19 prósent.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra vonar að landsframleiðslan sem tapast hefur á þessu ári verði endurheimt hraðar en gert er ráð fyrir í spánni.  

„Ég vonast til að árangur af aðgerðum stjórnvalda, sveigjanleiki íslenska hagkerfisins sömuleiðis, tækifæri sem við höfum til að halda áfram verðmætasköpun á Íslandi, geta ríkissjóðs til að taka þetta ástand í fangið. Við erum að reka ríkissjóð með mjög miklum halla til þess að grynnka þessa efnahagslægð. Þetta er ég að vonast til að skili sér allt í kraftmeiri viðspyrnu en gert er ráð fyrir í þessari efnahagsspá en þetta er það besta sem við höfum í augnablikinu og við vinnum með það.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi