Þyngja og staðfesta dóma í kynferðisbrotamálum

26.06.2020 - 19:40
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Landsréttur dæmdi í tveimur kynferðisbrotamálum í dag. Dómur Héraðsdóms Reykjaness yfir manni sem reyndi að nauðga konu í sumarbústað var þyngdur. Þá var staðfestur dómur Héraðsdóms Suðurlands yfir manni sem nauðgaði konu á skemmtistað. 

Fimmtán mánaða fangelsi fyrir tilraun til nauðgunar 

Maður var dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi í Landsrétti í dag fyrir tilraun til þess að nauðga svilkonu sinni í sumarbústað í ágúst árið 2013. Tólf mánaðanna eru skilorðsbundnir. Þá er þeim dæmda gert að greiða brotaþola 800 þúsund krónur með vöxtum. Maðurinn var einnig ákærður fyrir nauðgun og kynferðislega áreitni.  

Landsréttur þyngdi í dag dóm sem féll yfir manninum í Héraðsdómi Reykjaness í júlí árið 2018. Þar hafði hann verið dæmdur í tólf mánaða fangelsi, tíu þeirra skilorðsbundna, og gert að greiða brotaþola 600 þúsund krónur.  

Sá dæmdi og brotaþoli voru í sumarbústað ásamt eiginkonu þess dæmda og barnabarni þeirra, og þremur dætrum brotaþola. Þeim dæmda var gert að hafa farið inn í herbergi brotaþola þrívegis að nóttu, þar sem hún lá með þremur barnungum dætrum sínum, og beitt hana kynferðisofbeldi.  

Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjaness var málið kært til lögreglu sumarið 2015, tveimur árum eftir að atvikið átti sér stað. Hvorki fór því fram læknisrannsókn á brotaþola og ákærða né lögreglurannsókn á vettvangi.  

Í dómi Landsréttar segir að litið hafi verið til þess að brotið hafi ekki verið fullframið og að hann hafi ekki sætt refsingu áður. Þá var litið til þess að brotið hafði alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir brotaþola.  

Þriggja ára fangelsi fyrir nauðgun á skemmtistað 

Landsréttur staðfesti í dag dóm yfir manni sem nauðgaði konu á salerni á skemmtistað í nóvember árið 2018. Maðurinn er dæmdur í þriggja ára fangelsi auk þess sem honum er gert að greiða brotaþola tvær milljónir króna í miskabætur.  

Niðurstöður DNA-rannsóknar staðfesta frásögn brotaþola, sem hefur verið stöðug frá upphafi rannsóknar. Upptökur úr öryggismyndavélum á skemmtistaðnum styðja einnig frásögn hennar. Málið var kært til lögreglu nokkrum klukkustundum eftir nauðgunina. Maðurinn hefur frá upphafi neitað sök en í dómnum segir að hafið „sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök“.

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi