Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þurfa að ræða við um 300 manns vegna smits í Breiðablik

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Haft hefur verið samband við yfir sjötíu manns sem fara í sóttkví eftir að knattspyrnukona hjá Breiðablik greindist með kórónuveiruna. 

 

Að sögn Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns á smitrakningarteymið enn eftir að ræða við rúmlega 200 manns. Þeirra á meðal eru leikmenn Breiðabliks og KR, þjálfarar og dómarateymi. 

„Þetta verður stór hópur sem við verðum í samskiptum við í dag og á morgun,“ segir hann.

Víðir staðfestir að fimmtán starfsmenn atvinnuvegaráðuneytisins séu í þessum hópi. Þeir fóru í sjálfskipaða sóttkví í morgun eftir að smit greindist hjá einum starfsmanni ráðuneytisins.

Spurður hvort herða eigi á aðgerðum vegna smitsins nú segir hann aðgerðirnar svipaðar þeim sem gripið var til þegar hópsmit komu upp í Vestmannaeyjum, Hvammstanga og Bolungavík. „Líkt og við gerðum þá erum við skima og prófa miklu fleiri en við gerum að öllu jöfnu,“ segir hann. Ekki hafi verið tekin ákvörðun um neinar hertar aðrar aðgerðir. 

Víðir segir að nú sé verið að skima þá sem eru í sóttkví. Þeir sem voru fyrst í sambandi við knattspyrnukonuna og aðra sem kunni að hafa smitast fara fyrst í skimun. 

„Við viljum láta líða að minnsta kosti 4-5 sólarhringa frá því að hugsanlegt smit gæti hafa átt sér stað þangað til við viljum taka sýni,“  útskýrir hann. Með þessu móti séu meiri lýkur á að niðurstaðan úr skimuninni verði rétt.