„Þessi hraði er kominn úr böndunum“

Mynd: EPA / EPA

„Þessi hraði er kominn úr böndunum“

26.06.2020 - 12:31

Höfundar

Ragna Fróðadóttir textílhönnuður og myndlistarmaður starfar í New York fyrir Li Edelkort sem er einn virtasti tískustefnuspámaður okkar tíma. Þær vilja meina að loksins sé að hægjast á tískubransanum og æ fleiri séu að verða meðvitaðir neytendur sem geri við flíkur frekar en að fleygja þeim.

Öll þurfum við að klæðast einhverju og mörgum er mikið í mun að gera það í takt við helstu tískustrauma, að vera smart í tauinu og að eiga reglulega eitthvað nýtt til að skarta við ólík tilefni. Tískuiðnaðurinn er knúinn áfram af hugmyndum, sem hann elur á, um að eitthvað sé samkvæmt nýjustu tísku þá stundina og annað sé púkó. Um leið og búið er að kaupa sér og dressa sig upp í takt við nýjustu strauma flæða inn enn nýrri straumar og þá þurfi að endurnýja fataskápinn. En upp á síðkastið hafa myrkari hliðar á þessum bransa verið mikið í umræðunni. Æ meiri umfjöllun hefur orðið um stóraukna fataframleiðslu og uggvænlegar afleiðingar. Nú er talið að fata- og textíliðnaðurinn sé einn mest mengandi iðnaður heims, jafnvel í öðru sæti á eftir olíuiðnaðinum. Það fer eftir því hvernig hann er skilgreindur en sérfræðingar eru almennt sammála um að hann sé allavega á meðal efstu tíu. 

Umræðan hefur alið af sér aðeins meiri meðvitund á meðal neytenda. Margir leggja sig nú fram við að kaupa sér sjálfbæran fatnað en aðrir einbeita sér að því að láta flíkina endast sem lengst. Gera við hana og fara vel með. Stórfyrirtækin segjast nú í auknum mæli vera meðvituð um þróunina hvort sem þau beita því aðeins sem markaðstólum til að selja grænni flíkur eða viðurkenna þá staðreynd að til þess að komast af þurfi að nýta tæknina til að búa til vistvænni fatnað. 

Mynd með færslu
 Mynd: RUV mynd
Ragna segir að neytendur séu sífellt að verða meðvitaðari

Til er ákveðin starfstétt sem sérhæfir sig í að spá fyrir um breytingar á stefnum og straumum í tískuheiminum. Fólkið sem starfar við það kallast stefnuspámenn og mótar sýn á tísku og hönnunargeirann. Ragna Fróðadóttir sem búsett er í New York starfar fyrir Li Edelkoort sem er einn virtasti stefnuspámaður okkar tíma. Hún segir stefnuspámennskuna snúast um að „skoða það sem er að gerast í umhverfinu og tengja saman punktana. Það er það sem þeir sem eru í þessum bransa eru að gera.“

Li Edelkoort hefur vakið mikla athygli fyrir ummæli sín síðustu misseri og bransinn hlustar á hana. Og spádómshæfileikar hennar virðast vera þónokkrir. „Ég hef unnið fyrir hana í mörg ár og ég hitti hönnuði og útskýri hennar hugmyndafræði. Það sem hún hefur verið að tala um undanfarið er einmitt að gerast núna,“ segir Ragna. 

Áður en COVID-faraldurinn braust út hafði Edelkort lengi talað um að það sem væri í vændum í tískubransanum væri ákveðin bremsa, sem tekið yrði í. Hún sagði að það sama myndi gerast í ferðamannabransanum og það stendur heima. „Núna erum við á þeim stað sem við höfum talað um í dálítinn tíma,“ segir Ragna. „Hún setur þetta líka í fagurfræðilegt sjónarhorn í sambandi við hönnuði og framleiðslufyrirtæki. Það er það sem gerir hennar spá öðruvísi en margar aðrar. Hún hefur talað um margt í gegnum tíðina sem verður að veruleika.“

Edelkort vill meina að nú sé að ganga í garð það sem Ragna kallar tímabil áhugamannsins eða age of the amateur. „Allir vilja læra að vinna með höndunum og öll námskeið eru að springa. Löngunin til að skapa sjálfur, það er eitthvað sem Li talar um að sé að aukast,“ segir hún. Og fólk er að öðlast meiri virðingu fyrir flíkunum sínum og átta sig á skaðsemi þess að kaupa sér endalaust nýtt, að sögn Rögnu. „Viðhorf til fatnaðar er að breytast og það mun breytast og mun breytast meira og fleiri finna leiðir til að geta framleitt í minna magni. Þessi hraði sem hefur verið í gangi undanfarin ár er kominn úr böndunum,“ segir Ragna sem er viss um að hinn almenni neytandi sé farinn að hugsa öðruvísi. „Þessi fína lína á milli hágæða og lággæða er að hverfa. Við munum velja hluti af meiri kostgæfni og eiga í sambandi við flíkina. Okkur langar að halda í hana sem lengt, gera við hana þegar hún fer í sundur til að geta notað hana sem lengst. Þetta held ég að eigi eftir að breytast hjá ólíklegasta fólki.“

Þóra Flygenring ræddi við Rögnu Fróðadóttur í þættinum Tískuslys á Rás 1.

Tengdar fréttir

„Offramleiðslukerfið gengur bara ekki upp“

Margir söknuðu Met Gala en netverjar mættu á dregilinn