Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sviptir atvinnuleyfinu fyrir pöbbarölt

26.06.2020 - 11:25
epa07858619 Visitors toast with mugs of beer in the Paulaner Winzerer Faehndl tent during the opening day of the 186th Oktoberfest beer festival on the Theresienwiese in Munich, Germany, 21 September 2019. The Munich Beer Festival is the world's largest traditional beer festival and runs from 21 September to 06 October.  EPA-EFE/PHILIPP GUELLAND
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þremur breskum mönnum sem störfuðu í Singapore hefur nú verið bannað að vinna í landinu eftir að þeir rufu samkomubann og fór á pöbbarölt.  Þeim var einnig gert að greiða sekt að andvirði um 1,3 milljónir króna hver fyrir uppátækið.

Mennirnir voru ákærðir eftir að mynd af fólki við áfengisdrykkju í samkomubanninu fékk mikla dreifingu á samfélagsmiðlum í síðasta mánuði.

Annar hópur, bandarískt par og Ástrali, var einnig sektaður fyrri drykkju þennan sama dag.

BBC segir atvinnumálaráðuneyti Singapore hafa greint frá því að á tímabilinu frá 1. maí til 25. júní hafi 140 manns misst atvinnuleyfi í ríkinu fyrir að brjóta reglur sem settar voru vegna kórónaveirunnar.

Bretarnir greindu frá því fyrir dómi að þeir hefðu hist fyrir tilviljun í Robertson Quay, sem er vinsælt veitingahúsa- og skemmtistaðahverfi í miðborg Singapore. Þar heimsóttu þeir svo þrjá bari á þremur korterum. Börum í borginni var óheimilt að hafa opið fyrir gesti, en máttu selja drykki sem viðskiptavinir höfðu með sér á brott.

Síðar þennan sama dag hlutu myndir sem vegfarandi birti af fólki sem safnast hafði saman og neytti áfengis mikla dreifingu á samfélagsmiðlinum Facebook. Varpaði höfundur færslunnar þar fram spurningunni hvers vegna íbúum í húsnæði í eigu ríkisins væri refsað fyrir að brjóta reglur um samkomubann á meðan að aðrir virtust geta neytt áfengis á almannafæri án þess að vera með grímur.

Saksóknari fór fram á vikulangt fangelsi yfir þeim, en dómari ákvað að þeir skyldu þess í stað greiða sekt og missa atvinnuleyfið.
 

Anna Sigríður Einarsdóttir