Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stærsta hópsýking síðan faraldurinn hófst

Mynd: RÚV - Freyr Arnarson / RÚV
Þrjú hundruð eru í sóttkví vegna smits sem rekja má til leikmanns Breiðabliks. Þetta er stærsta verkefni smitrakningarteymisins til þessa. Til greina kemur að skimaðir farþegar frá áhættulöndum, fari líka í sóttkví.

Skimun besta leiðin

Á upplýsingafundi forsætisráðherra í Ráðherrabústaðnum síðdegis með þríeykinu og Kára Stefánssyni var farið yfir reynsluna af landamæraskimuninni og hópsýkinguna sem kom upp eftir að í ljós kom að einkennalaus leikmaður kvennaliðs Breiðabliks greindist ekki með kórónuveiruna á landamærunum 17. júní en sýni sem tekið var í fyrradag reyndist jákvætt. 

„Það sögðum við náttúrulega í upphafi að við vissum að þessi skimun væri aldrei 100 prósent. Við myndum fá smit og að þá yrðum við að bregðast við því. Eins og ég sagði hér á fundinum að þá er það ennþá mín sannfæring að þetta sé besta og varfærnasta leiðin til þess að opna landamæri,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. 

Hún segir að framkvæmdin hafi gengið mjög vel og megi þakka það starfsmönnum Íslenskrar erfðagreiningar, Landspítalans, Öryggismiðstöðvarinnar, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og fleiri. 

Hundruð í sýnatöku hjá heilsugæslunni

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra segir að í heildina séu um það bil 300 í sóttkví eða á leiðinni í sóttkví en að ekki sé búið að ná sambandi við alla. 

Tvö hundruð manns voru sendir í sýnatöku hjá heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins í dag og á morgun og stór hópur verður sendur eftir helgi. Þegar hefur einn smitast og hafa samstarfsmenn í deild hans í ráðuneyti ferðamála verið sendir í sóttkví. Einnig kvennalið Breiðabliks og KR sem spilaði á móti þeim. 

Er þetta stærsta aðgerð sem smitrakningateymið hefur farið í?

„Já, þetta er að mér skilst langstærsta verkefnið sem þau hafa tekið að sér.“

Sóttkví bætist kannski við landamæraskimun

Í ljósi þessarar reynslu þykir þá sóttvarnalækni koma til greina að skikka Íslendinga sem koma til landsins í sóttkví samhliða landamæraskimun?

„Mér finnst það alveg koma til greina að skoða þann möguleika mjög vandlega að Íslendingar og jafnvel aðrir sem eru að koma frá löndum þar sem útbreiðslan er mjög mikil að þau fari í próf og fari líka í sóttkví í tvær vikur og hugsanlega í próf eftir nokkra daga,“ segir Þórólfur Guðnason. 

Hann er að fara yfir þetta betur og á von á niðurstöðu fljótlega í næstu viku. Hann segir að athuga þurfi hvort breyta þurfi áherslum í skimun og gefa sérstakan gaum að löndum þar sem smit er mikið eins og Bandaríkjunum, Indlandi, Rússlandi, Brasilíu og hugsanlega Svíþjóð. 

Geta skimað fleiri en tvö þúsund farþega

Frá 1. júlí kostar sýnatakan níu þúsund krónur ef greitt er fyrirfram en annars ellefu þúsund. Upphaflega var gert ráð fyrir að hún myndi kosta fimmtán þúsund. Hægt er að taka sýni úr fleiri en 2000 manns á dag en eins og kunnugt er rúma vélar sem hingað koma í júlí um 9000 farþega á dag. Sóttvarnalæknir vill í ljósi hópsýkingarinnar bíða með að auka daglegan sýnafjölda. 

Mynd með færslu
 Mynd: Ingólfur Bjarni Sigfússon - RÚV
Fólk í sóttkví bíður sýnatöku í bílum sínum við Heilsugæslu Hlíðasvæðis í dag.