Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nýr héraðsfréttamiðill verður til

26.06.2020 - 15:46
Héraðsfréttablöð, Skarpur, Vikudagur, Vikublaðið
 Mynd: Rúv.is
Nýr héraðsfréttamiðill á Norðurlandi hefur göngu sína í næstu viku, en hann verður til með sameiningu tveggja rótgróinna héraðsfréttamiðla, Vikudags og Skarps.

Vikudagur hefur verið gefinn út á Akureyri frá árinu 1996 og er honum dreift í 1.600 eintökum. Skarpur er gefinn út á Húsavík í 800 eintökum, en hann var stofnaður árið 2002. Síðustu eintökum þessara blaða var dreift í vikunni.

Hið sameinaðablað mun heita Vikublaðið og verður gefið út í Eyjafirði og Þingeyjasýslum og munu blaðamann starfa bæði á Akureyri og Húsavík.

Ritstjóri Vikublaðsins verður Þröstur Ernir Viðarsson sem ritstýrt hefur Vikudegi frá árinu 2014. Fráfarandi ritstjóri Skarps, Jóhannes Sigurjónsson, lætur af störfum að eigin frumkvæði en hann hefur flutt fréttir úr heimabyggð í rúma fjóra áratugi.

Auk áskriftar er Vikublaðið fáanlegt í lausasölu og nýr vefur, vikubladid.is, mun opna samhliða fyrsta tölublaðinu.

Þeir Jóhannes og Þröstur Ernir segja í grein á vef Vikudags að sameining blaðanna veiti mörg tækifæri í fjölmiðlun. Fleiri pennar komi að blaðinu sem skili sér í fjölbreyttari efnistökum. „Hið nýja blað mun stokka upp efnistökin og kynna nýja liði til leiks næstu vikur og mánuði. Blaðinu verður ekkert óviðkomandi og mun leitast eftir því að segja fréttir af málefnum líðandi stundar.“

Magnús Geir Eyjólfsson