Milduðu dóma amfetamínframleiðenda

26.06.2020 - 17:21
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Landsréttur sakfelldi í dag þá Alvar Óskarsson, Einar Einarsson og Margeir Pétur Jóhannsson fyrir amfetamínframleiðslu í sumarbústað í Borgarfirði og kannabisrækt í útihúsi bóndabæjar á Suðurlandi. Þeir fengu þó vægari refsingar en þeir höfðu hlotið þegar Héraðsdómur Reykjavíkur felldi dóm í málinu. Alvar hlaut sex ára fangelsisdóm en þeir Einar og Margeir fimm ár hvor. Allir áttu að sitja ári lengur í fangelsi samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.

Lögregla fylgdist með mönnunum um skeið síðasta sumar vegna gruns um lögbrot þeirra. Grunurinn beindist að kannabisframleiðslu á Suðurlandi. Þar fundust 206 kannabisplöntur og 111,50 grömm af kannabisstönglum. Við þá rannsókn uppgötvaðist amfetamínframleiðsla mannanna í sumarbústað í Borgarfirði. Lögreglan fylgdist með ferðum þeirra á suðvesturhorninu sem enduðu í sumarbústaðnum. Þar voru tveir mannanna drýgstan hluta dagsins og sá þriðji hluta dags. Mennirnir voru handteknir á leið frá sumarbústaðnum. Í bústaðnum fundust 8,6 kíló af amfetamíni. Sannað þótti að þar hefðu þeir framleitt afmetamínið.

Lögreglumenn neituðu að gefa það upp í héraðsdómi hvar nákvæmlega þeir hefðu verið þegar þeir fylgdust með þremenningunum. Það lét héraðsdómari viðgangast. Landsréttur segir hins vegar að það sé með engu móti unnt að sjá hvernig upplýsingar um nákvæma staðsetningu lögreglumanna á vettvangi geti varpað ljósi á starfsaðferðir lögreglunnar sem rétt þyki að fari leynt. Því hefði héraðsdómarinn átt að láta lögreglumennina svara spurningum verjenda að mati landsréttardómaranna.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi