Maður í gæsluvarðhaldi vegna eldsvoða

Mynd: Skjáskot / RÚV
Karlmaður á sjötugsaldri hefur verið hnepptur í gæsluvarðhald í allt að viku vegna rannsóknar lögreglu á eldsvoðanum mannskæða á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu í Reykjavík í gær. Frumrannsókn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gefur til kynna að eldurinn hafi kviknað af mannavöldum. Maðurinn sem nú er í gæsluvarðhaldi var handtekinn þegar hann reyndi að komast inn í rússneska sendiráðið í gær. Hann bjó í húsinu sem brann og er talið að eldurinn hafi kviknað í eða við vistarverur hans.

Þetta kom fram á blaðamannafundi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins á sjötta tímanum í dag. Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri og Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn fóru yfir eldsvoðann og rannsókn hans. 

Ásgeir Þór sagði að fyrstu viðbragðsaðilar hefðu komið á staðinn innan fimm mínútna frá því neyðarkall barst. Þá sáust allt að fimm einstaklingar á efstu hæð hússins sem gátu ekki komist út með eðlilegum hætti. Tveir köstuðu sér út og einum var bjargað út með stiga. Líkamsleifar tveggja manna fundust á sjöunda og níunda timanum í gærkvöld á þriðju hæð hússins. Þriðji maðurinn var úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi. Ekki er búið að bera kennsl á hina látnu með óyggjandi hætti, sagði Ásgeir Þór.

Handtekinn við rússneska sendiráðið

Maður sem var handtekinn við rússneska sendiráðið á sama tíma og tilkynnt var um eldinn er á sjötugsaldri. Hann býr í húsinu. „Lögreglan hefur rökstuddan grun um að eldurinn hafi kviknað af mannavöldum,“ sagði Ásgeir Þór. Eldurinn virðist hafa komið upp við eða í vistarverum þessa manns. Óskað var eftir vikulöngu gæsluvarðhaldi yfir manninum í dag og féllst héraðsdómur á það. Ásgeir Þór sagði að ekki væri vitað hvers vegna maðurinn leitaði í rússneska sendiráðið.

Húsið skoðað tvisvar 2017

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, sagði að rannsókn yrði gerð á húsnæðinu eftir eldsvoðann. Það væri samkvæmt lögum. Hann sagðist ekki vita hvort þetta myndi leiða til þess að lögum um eftirlit með brunavörnum yrði breytt. Jón Viðar sagði að óskað hefði verið eftir heimild til að breyta jarðhæð hússins og hluta viðbyggingar árið 2000. Það var samþykkt. Árið 2014 var beðið um heimild til að breyta rýminu í gistiheimili. Þeirri beiðni var hafnað. Jón Viðar segir að slökkviliðið hafi tvisvar farið á vettvang til að skoða jarðhæðina árið 2017, þar sem það féll undir atvinnuhúsnæði, en þá hafi enginn verið þar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi