Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Logi ætlar að kjósa Guðna

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Formenn flokkanna voru almennt ekki tilbúnir til að svara fyrirspurn fréttastofu um hvort þeir hygðust kjósa Guðmund Franklín Jónsson eða Guðna Th Jóhannesson í forsetakosningunum á laugardaginn. Ein undantekning var þar á - það var Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

Haft var samband við formenn allra þeirra átta flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi í fyrradag og þeir spurðir hvort þeir væru búnir að kjósa, hvorn forsetaframbjóðandanna þeir styddu og hvers vegna.

Fátt var um svör. Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata sem tók við beiðninni fyrir hönd flokksins, sagðist þurfa að segja „pass“. Henni þætti ekki rétt að svara spurningunum í ljósi stöðu sinnar. Inga Sædal, formaður Flokks fólksins, sagðist ekki vilja svara spurningunni á annan hátt en að hún myndi kjósa annanhvorn frambjóðendanna tveggja.

Segir Miðflokkinn ekki skipta sér af forsetakosningum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagðist ekki hafa kosið utan kjörfundar. Á seinni áratugum hefðu flokkar sem betur fer forðast að skipta sér af forsetakosningum. „Miðflokkurinn hefur ekki og mun ekki skipta sér af forsetakosningum og ég tel að stjórnmálaflokkar eigi að láta slíkar kosningar afskiptalausar og þar með formenn flokkanna. Forseti Íslands þarf að vera forseti allra landsmanna að kosningum loknum,“ segir í skriflegu svari Sigmundar Davíðs.

Segir Guðna og Elizu vera til sóma

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagðist hafa gert upp hug sinn. „Ég mun kjósa Guðna á laugardaginn. Ég kaus hann fyrir fjórum árum og hann hefur staðið fyllilega undir væntingum mínum. Hann og Eliza eru embættinu til sóma,“ sagði í skriflegu svari Loga.

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir