Lífstíðarfangelsi fyrir að hrinda dreng af svölum Tate

26.06.2020 - 11:40
epa07757636 People queue to enter the Tate Modern art gallery in Southwark, London, Britain 05 August 2019. A six-year-old boy was thrown five floors from the 10th floor of the Tate Modern art gallery on 04 August 2019. A 17-year-old boy has been arrested on suspicion of attempted murder.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA
Átján ára karlmaður var í Lundúnum í morgun dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að hrinda sex ára dreng fram af svölum Tate Modern listasafnsins í Lundúnum í fyrra. Drengurinn féll um þrjátíu metra og slasaðist alvarlega, fékk heilablæðingu og fjölda beinbrota.

Drengurinn varð fyrir varanlegum skaða og missti málið en var farinn að geta tjáð sig nokkrum mánuðum eftir atvikið. Maðurinn, Jonty Bravery, játaði fyrir dómi í desember að hafa hrint drengnum. Hann fær lífstíðardóm og þarf að sitja í fangelsi í minnst fimmtán ár. Hann sagði lögreglu að hann hefði heyrt raddir sem sögðu honum að reyna að drepa eða slasa viðstadda. 

Drengurinn var á ferðalagi með fjölskyldu sinni en þau búa í Frakklandi. Atvikið varð í ágúst í fyrra en hann var kominn heim í septemberlok. Þau efndu til söfnunar til að safna fé fyrir endurhæfingu hans og hafa þegar safnað 230 þúsund evrum, tæpum 38 milljónum íslenskra króna. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi