Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Íbúar kjósa um nöfn á morgun: Austur-, Dreka- eða Múla-

26.06.2020 - 12:18
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Fjögur sveitarfélög á Austur
Íbúar í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi velja á milli sex nafna samhliða forsetakosningunum á morgun. Valið stendur um: Austurþing og Austurþinghá, Drekabyggð, Múlabyggð, Múlaþing og Múlaþinghá.

Íbúar á Borgarfirði eystra, Djúpavogi, Fljótsdalshéraði og Seyðisfirði samþykktu sameiningu í október og tekur nýtt sveitarfélag til starfa eftir sveitarstjórnarkosningar 19. september. Eitt af fyrstu verkum nýrrar sveitarstjórnar verður að ákveða hvað sveitarfélagið á að heita.

Nafnakosningin er ekki bindandi heldur ráðgefandi, 67 hugmyndir komu frá íbúum en 17 tillögur voru sendar til umsagnar örnefnanefndar. Undirbúningsnefnd sameiningar ákvað um hvaða tillögur skyldi kosið.

Fyrst má nefna Austurþing og Austurþinghá. Örnefnanefnd mælti ekki með þessum nöfum en lagðist heldur ekki gegn þeim. Hún hafði ekkert út á eftirliðina þing og þinghá að setja en taldi forliðinn austur vera ógreinilega afmörkun á svæðinu enda eru fleiri sveitarfélög á Austurlandi.

Þriðji valkosturinn er nafnið Drekabyggð. Dreki vísar til landvættar Austurlands í skjaldarmerki Íslands. Örnefnanefnd leggst gegn þessu nafni. Ekki sé hefð fyrir því að kenna stór svæði við dreka eða hinar landvættirnar, gamminn, griðunginn og bergrisann. Samkvæmt sögn um þær í Heimskringlu birtist drekinn í Vopnafirði og nefndin bendir á að hann sé ekki hluti af sveitarfélaginu.

Að lokum má nefna þrjá valkosti, Múlabyggð, Múlaþinghá og Múlaþing. Örnefnanefnd mælir með tveimur fyrrnefndu en ekki Múlaþingi þar sem það geti raskað merkingu þessa gamla heitis yfir allan Austfirðingafjórðung. Múli vísar til fjallsins Þingmúla í Skriðdal sem er miðsvæðis í nýja sveitarfélaginu og þar var þingstaður Austfirðinga. Múli kemur fyrir í fleiri örnefnum á svæðinu sem áður tilheyrði Múlasýslum.

Athygli vekur að þeir sem eru orðnir 16 ára á kjördag mega kjósa um nöfnin sex og má hver merkja við tvö nöfn, fyrsta og annan kost.

Hér má kynna sér nafnatillögurnar nánar og fyrirkomulag kosningar. 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV