Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Heillandi að týnast í blekkingarleik málverksins

Mynd: Ruv mynd / Ruv mynd

Heillandi að týnast í blekkingarleik málverksins

26.06.2020 - 11:39

Höfundar

„Hér eru verk eftir listamenn sem horfa með sínum augum á það sem þeir sjá í raunheimum, svo fer það sem þeir sjá í gegnum þeirra huga og fram í fingurgómana og yfir á tvívíðan flöt,“ segir Markús Þór Andrésson, sýningarstjóri sýningarinnar Allt sem sýnist – Raunveruleiki á striga 1970-2020.

Átján listamenn eiga verk á sýningunni sem fram fer í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum. „Þó þessi verk séu öll fyrst og fremst túlkun listamannanna á veruleikanum, þá eru þau ekki innihaldslaust yfirborð,“ segir Markús Þór Andrésson þegar fulltrúa Víðsjár á Rás 1 ber að garði á Kjarvalsstöðum.

„Hér er fólk að velta fyrir sér alls kyns pælingum sem er gaman að dvelja við og skoða. Í verkunum er verið að fjalla um heimsmálin, heimkynnin, samband manns og náttúru og margt margt fleira. Sviðið er því fjölbreytt jafnvel þótt að allir vinni út frá raunsæinu.“

Markús segir að þótt að hugmyndalist hafi verið fyrirferðarmikil í íslenskri myndlist á tímabilinu sem sýningin tekur til (1970-2020) hafi raunsæið alltaf verið í gangi meðfram og saman við. „Þetta hefur alla tíð verið vinsælt meðal listamanna, það er fullt af fólki sem hefur lagt nótt við dag til að ná færni og árangri á þessu sviði og erfitt að segja hvort þetta eigi einhvern blómatíma frekar en annan.“

Opnun 

Sýningin á Kjarvalsstöðum ætti að hafa alla burði til að verða vinsæl, enda endurspeglun á veruleikanum alltaf sígild, þó stílfærð sé.

„Það er svo sannarlega til einhvers unnið ef sýning af þessu tagi geti nú opnað hlutina,“ segir sýningarstjórinn. „Það ætla ég að vona vegna þess að þetta eru myndir sem eru heillandi hver um sig af því að maður týnir sér í þessum blekkingarleik sem að málverkið er. Ef þetta kemur fyrst og síðan pælingar um hugmyndirnar að baki síðar þá er það ekki slæm leið inn í heim myndlistarinnar. Hér geta fyrstu kynni verið jákvæð.“

Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru: 

 • Eggert Pétursson
 • Eiríkur Smith
 • Erla S. Haraldsdóttir
 • Erró
 • Guðjón Ketilsson
 • Gústav Geir Bollason
 • Hallgrímur Helgason
 • Helena Margrét Jónsdóttir
 • Hlaðgerður Íris Björnsdóttir
 • Hringur Jóhannesson
 • Karl Jóhann Jónsson
 • Kristinn G. Harðarson
 • Ragnhildur Jóhannsdóttir
 • Sara Vilbergsdóttir
 • Sigtryggur Bjarni Baldvinsson
 • Svanhildur Vilbergsdóttir
 • Þorri Hringsson
 • Þura - Þuríður Sigurðardóttir

 

Tengdar fréttir

Myndlist

Fyrsti þverfaglegi listamaðurinn

Myndlist

Ég held að þetta hafi bara verið gaman

Myndlist

Listamenn leita að tækifærum í óreiðunni

Myndlist

Hryllingurinn er yfirfærsla á hinu kunnuglega