Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Guðni með yfirburði í öllum könnunum

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur mælst með mikla yfirburði  á mótframbjóðanda sinn Guðmund Franklín Jónsson í öllum þeim fimm skoðanakönnunum sem rannsóknarfyrirtækin Gallup, EMC rannsóknir, Maskína og Zenter hafa framkvæmt fyrir forsetakosningarnar á morgun.

Greint var frá því þann 27. maí að Guðmundur Franklín og Guðni hefðu tveir frambjóðenda skilað inn nægum fjölda meðmælenda og yrðu því í framboði til forsetakjörs.

Gallup gerði fyrstu könnunina og hún var birt 3. júní. Þar mældist Guðmundur Franklín með 9,6% fylgi og Guðni með 90,4%.

Nokkrum dögum síðar, 8. júní, birtu EMC-rannsóknir könnun sem sýndi fylgi Guðmundar Franklíns 9,1% og Guðna 90,9%.  

Niðurstaða könnunar sem Maskína birti 11. júní og Zenter þann 20. júní skiluðu nákvæmlega sömu niðurstöðu. Í báðum könnunum mældist fylgi Guðmundar Franklín 7,6% og Guðna 92,4%.

Áfram virðist hafa kvarnast úr fylgi Guðmundar Franklín, samkvæmt könnun Gallups, sem birt var 23. júní mældist Guðmundur Franklín með 6,5% fylgi en Guðni með 93,5%.

Eitthvað hefur verið um aðra niðurstöðu í vefkönnunum sem ekki voru unnar af rannsóknarfyrirtækjunum. Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við fréttastofu muninn felast í því að annars vegar sé um að ræða kannanir sem fari eftir vísindalegum reglum, þar sem þátttakendur eru ýmist spurðir augliti til auglits, í síma eða á netinu.

„Hinar kannanirnar, sem enginn fræðimaður tekur mark á, það eru kannanir sem byggjast á svo kölluðum sjálfvöldum úrtökum og sem allir geta tekið þátt í,“ sagði Ólafur og kvað kannanir með sjálfvöldu úrtaki vera marklausar.