„Ekki á áætlun að skima sérstaklega hjá íþróttafélögum“

Mynd: RÚV - Freyr Arnarson / RÚV

„Ekki á áætlun að skima sérstaklega hjá íþróttafélögum“

26.06.2020 - 20:05
Fjórum leikjum hefur verið frestað í úrvalsdeild kvenna í fótbolta vegna COVID-19 smitsins sem greindist í kvennaliði Breiðabliks í gær. Hluti af karlaliði Breiðabliks eru nú á meðal þeirra þrjú hundruð sem eru í sóttkví vegna málsins.

Almannavarnir greindu frá smitinu í gær og í kjölfarið var ljóst að kvennalið Breiðabliks og KR og þjálfarateymi þeirra færu í tveggja vikna sóttkví. Leikmaðurinn sem smitaðist fór í skimun á Keflavíkurflugvelli 17. júní en sýni reyndist neikvætt. Þegar í ljós kom að hún hafði átt í samskiptum við smitaðan einstakling erlendis var hún skimuð aftur og sýnið reynist jákvætt.

Nú hafa tvö tilfelli verið staðfest hér á landi í viðbótar og er annað þeirra tengt leikmanni Breiðabliks. Almannavarnir vinna að málinu líkt og gert var þegar hópsýkingar urðu þegar faraldurinn var í hámarki. Búið er að fresta næstu tveimur leikjum bæði Breiðabliks og KR og ekki er ljóst hvaða afleiðingar þetta hefur á Íslandsmótið. Um 300 manns eru í sóttkví í tengslum við málið

„Karlalið Breiðabliks fer að hluta til í sóttkví í dag. Það er bara vegna tengsla á milli liðanna á einni æfingu og það er í skoðunar hvort það sé allt karlaliðið eða hluti þeirra, smitrakning á því er í gangi.“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn og deildarstjóri almannavarna.

Nú hafa erlendir leikmenn verið að bætast við deildirnar síðustu vikur og var Víðir spurður hvort farið verði í sérstakar aðgerðir vegna þeirra.

„Það náttúrulega fóru allir í sýnatöku við landamærin en það er ekki á áætlun að skima sérstaklega hjá íþróttafélögum.“ segir Víðir.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, var þá spurð hvort reglur yrðu hertar hjá sambandinu vegna málsins.

„Nei, ég held að við höfum séð það með þessar reglur að, til dæmis með dómaratríóið af leik Breiðabliks og KR, fór eftir öllum okkar reglum og vegna þess var hægt að aflétta sóttkvínni af aðstoðardómurunum. Dómarinn var í meiri snertingu við leikmenn og þarf því að fara í sóttkví. Ef félögin fylgja þessum reglum og leiðbeiningum og við öll, þá held ég að það sé ekki ástæða til þess.“ segir Klara.

Ummæli þeirra Víðis og Klöru má sjá að ofan.

Uppfært kl. 20:25: Víðir Reynisson greindi frá því á Twitter-síðu sinni í kvöld að enginn úr karlaliði Breiðabliks þyrfti að fara í sóttkví eftir smitrakningu.