COVID-19 og umhverfismálin

26.06.2020 - 15:10
Mynd: EPA-EFE / EPA
Áður en COVID-19 skall á heiminum voru loftslagsbreytingar af mannavöldum víða áhyggjuefni. Umhverfisstefna flestra landa er þó tæplega róttæk. Nú heyrist víða að aðgerðir gegn veirunni sé dæmi um að stjórnir geti tekið afdrifaríkar ákvarðanir þegar mikið liggi við. Sömu kláru tökin þurfi nú í loftslagsmálum því þar liggi ekki síður mikið við.

Eftir fyrstu veiruaðgerðirnar rifjuðust umhverfismálin upp

 Þegar þjóðarleiðtogar náðu aftur andanum eftir að hafa lokað heilu hagkerfunum, bókstaflega frá einum degi til annars, til að hindra COVID-19 smit minnti eldri vandi aftur á sig: að loftslagsbreytingar eru að valda og gætu enn frekar valdið heiminum alvarlegum búsifjum. Og margir ganga enn lengra: veirufaraldurinn og loftslags- og umhverfismál eru einn og sami vandinn.

Macron: veiran og umhverfismálin verða ekki skilin að

Í viðtali við dagblaðið Financial Times um miðjan apríl hnykkti Emanuel Macron Frakklandsforseti á þessari samtvinnun. Þessi ótrúlega breyting, sem veirufaraldurinn hefði leitt yfir heiminn, þetta að geta ekki farið út úr húsi, myndi breyta okkur. Macron sagðist ekki telja að baráttan við veiruna bitnaði á umhverfisvandanum. Hann væri þess fullviss að þetta tvennt væri tengt.

Hræðslan getur líka verið drifkraftur

Það sem við höfum uppgötvað núna er hræðslan, sagði Macron. Hræðslan um okkur sjálf. Og enginn hikar við að taka harkalegar ákvarðanir þegar lífið er að veði. Hérna áður voru hættulegar farsóttir alltaf einhvers staðar annars staðar. En ekki lengur. Þegar þetta kemur fyrir okkur, gildir að vakna, benti Macron á. Boðskapur hans til þróaðra þjóða er að bíða ekki eftir að vakna upp við aðra eins vá vegna loftslagsbreytinga og heilbrigðisvána, sem við glímum við núna.

Fleiri leiðtogar sjá tenginguna en annað mál með aðgerðir

Macron er fjarri því eini þjóðarleiðtoginn sem hefur tekið þennan pól í hæðina, tengir saman veiruvána og loftslagsmálin. Bæði Angela Merkel Þýskalandskanslari og Boris Johnson forsætisráðherra Breta hafa tekið í sama streng. Merkel hefur reyndar ekki sýnt áþreifanleg tök í loftslagsmálum. Ekki einfalt í bílalandinu mikla.

Og Johnson hefur ekki sýnt sérlega sannfærandi áhuga á umhverfis- og loftslagsmálum. Andstæðingar hans segja það meðal annars stafa af því kalda mati að kjósendur í fátækari landshlutum, sem klárlega komu Íhaldsflokknum til valda í desember, telji umhverfismálin ekki forgangsmál.

ESB og nýja græna stefnan

Evrópusambandið setti nýja umhverfisstefnu á oddinn í fyrra. Keppikefli Ursulu von der Leyen, sem tók við sem forseti framkvæmdastjórnar ESB í fyrrahaust, er að ná einhverjum árangri í þeim efnum. Í ávarpi á ráðstefnu um umhverfismál í lok apríl tengdi hún þessa stefnu við COVID-19 veiruna.

Nú þegar allt væri lokað gætum við vissulega andað að okkur hreinna lofti en áður. Við sæjum hvað náttúran næði sér fljótt á strik. En við skyldum ekki láta þetta villa um fyrir okkur. Við næðum kannski tökum á veirunni en það væri langt í að við næðum tökum á umhverfismálunum.

Vistvænar fjárfestingar ein leiðin út úr efnahagshremmingum veirunnar

Von der Leyen hnykkti á að vistvænar fjárfestingar í anda ,,nýja græna samkomulagsins,“ eða ,,the new green deal,“ sem stefnan kallast á ensku, eigi að gera hagvöxt sjálfbæran, auka lífsgæðin og rífa ESB-löndin uppúr efnahagshremmingunum sem fylgdu í kjölfar veirunnar.

Extinction Rebellion hugsar líka málið upp á nýtt

En fleiri en stjórnmálaleiðtogar hafa þurft að hugsa málin upp á nýtt. Umhverfissamtökin Extinction Rebellion settu svip sinn á Bretland í fyrra með mótmælum, sem stöðvuðu mannlífið í London og hliðstæð samtök hafa víða sprottið upp. Þegar veirufaraldurinn kom upp lögðust leiðtogar bresku samtakanna undir feld, meðal annars til að hnykkja á að faraldurinn og umhverfismálin yrðu ekki aðskilin. Hyggjast hafa það að leiðarljósi í framtíðinni.

Eitt eru orð, annað aðgerðir

Munurinn á veiruaðgerðum stjórnmálamanna á nokkrum dögum og vikum og svo aðgerðum eða aðgerðaleysi í umhverfismálum gæti varla verið meiri. Mikið rétt, veiran er afmarkað viðfangsefni, loftslagsmálin flóknari en vísindamenn hafa lengi bent á skýr úrræði. Það verður sannarlega áhugavert að sjá hvort og hvernig einstökum löndum tekst að gera aðgerðir í loftslagsmálum jafn afdráttarlausar og aðgerðirnar gegn COVID-19 veirunni.

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi