Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Covid-19 herjar enn þungt á Bandaríkin

26.06.2020 - 03:40
epa05424799 (FILE) A file photo dated 21 November, 2013 showing Indiana Governor Mike Pence discussing the technological advances his state is making in everything from school bus safety record tracking to real-time monitoring of new damage to bridges
 Mynd: EPA - EPA FILE
Nú hafa yfirvöld í Texas hægt á þeim skrefum sem taka átti við að koma efnahag ríkisins aftur af stað. Ástæðan er gríðarleg fjölgun kórónuveirutilfella þar og víða í Bandaríkjunum undanfarið.

Fyrr í júní var gengið mjög ákveðið fram í Texas við að slaka á útgöngubanni og öðrum takmörkunum enda vonuðust ráðamenn þar til að ríkið hefði þá komist í gegnum versta kúfinn.

En nú snýr allt til fyrra horfs eftir að 5.500 greindust og 47 létust af völdum veirunnar þar í gær. Það eru að sönnu færri dauðsföll en suma daga í apríl og maí en yfirvöld í ríkinu vilja gera allt sem hægt er við að hefta frekari útbreiðslu kórónuveirunnar.

Greg Abbott ríkisstjóri er þar með kominn í andstöðu við bandamann sinn Donald Trump Bandaríkjaforseta hvað snertir viðbrögð við veirunni. Forsetinn hefur látið þau orð falla að faraldurinn sé að mestu genginn yfir.

Í gær greindust um 38 þúsund ný tilfelli vestra, sem nálgast að vera nýtt met. Undanfarinn sólarhring létust þar 592 af völdum Covid-19. Fjöldi látinna í Bandaríkjunum er þar með orðinn nærri 122 þúsund sem er mesti fjöldi nokkurs staðar í heiminum.

Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna tilkynnti að í dag myndi viðbragðsteymi Hvíta hússins efna til blaðamannafundar í fyrsta sinn í nærri tvo mánuði. Það þykir til marks um hve alvarleg staðan er í Bandaríkjunum núna.

Sérfræðingar hjá Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) hafa áætlað að á bakvið hvert tilkynnt smit geti leynst tíu önnur. Það sé vegna þess að aðeins fólk með augljós einkenni var skimað. 

Því þurfi Bandaríkjamenn að halda vöku sinni, gæta að handþvotti, ganga með grímur og huga að fjarlægðartakmörkunum. Þannig megi draga úr frekari útbreiðslu veirunnar og koma í veg fyrir dauðsföll af völdum hennar.