Brjálaða Ingiríður í kosningakaffið

Mynd: AP / AP

Brjálaða Ingiríður í kosningakaffið

26.06.2020 - 14:55

Höfundar

Á morgun fá Íslendingar tækifæri til að nýta sér lýðræðislegan kosningarétt sinn og kjósa sér forseta lýðveldisins. Áður fyrr tíðkaðist það í meira mæli en í dag að fólk klæddi sig upp í tilefni hvers kyns kosninga í sitt fínasta púss, greiddi sér og jafnvel bónaði bílinn áður en atkvæði var greitt.

Þá var algengt að boðið væri til kosningakaffisamsætis á kjördag þar sem spariklæddar fjölskyldur og vinir komu saman og nutu þess að narta í heimabökuð sætindi með lafþunnu kaffi úr sparistelli. Mannlegi þátturinn rýndi í þessar gömlu hefðir og hvatti til að blásið yrði lífi í þær að nýju í þættinum í dag. Sigurlaug Margrét Jónasdóttir, þáttastjórnandi og matgæðingur, deildi með hlustendum sinni eftirlætis kosningaköku. Sú heitir Brjálaða Ingiríður og er afar einföld og sérstaklega gómsæt með ferskum ávöxtum og léttþeyttum rjóma.

Uppskriftin er sem hér segir: 

Brjálaða Ingiríður

1 bolli döðlur
1/2 bolli saxað súkkulaði
1/2 bolli kókosmjöl
1 bolli sykur
2 egg
2 tsk vanilla
1 tsk lyftiduft
2 msk kalt vatn
3 msk hveiti

Öllu blandað saman, sett í hringlaga form og bakað við 200 gráður í 20-30 mínútur.

Tengdar fréttir

Leiklist

Kynntist eiginmanninum á fyrstu æfingunni

Leiklist

Voru Bakkabræður fórnarlömb falsfrétta?