Birti kynferðislegar myndir af fyrrverandi á Facebook

26.06.2020 - 22:46
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Landsréttur sakfelldi karlmann í dag fyrir að birta kynferðislegar myndir af fyrrverandi sambýliskonu sinni á Facebook auk þess að senda henni hótanir og ærumeiðingar í smáskilaboðum. Landsréttur sneri þar með við dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra sem hafði sýknað manninn. Hann var nú dæmdur til sex mánaða fangelsisvistar en þar af er helmingur skilorðsbundinn.

Maðurinn og konan voru í sambúð og eignuðust saman barn. Eftir sambandsslit þeirra hafði maðurinn í hótunum við konuna og birti bæði kynferðislegar myndir af konunni og upplýsingar um hana á Facebook. Þar skrifaði hann meðal annars nafn hennar, símanúmer og notendanafn á Snapchat. Jafnframt sagðist hann hafa myndbönd af konunni sem fólk gæti fengið ef það vildi. Myndunum fylgdu einnig ummæli sem særðu blygðunarsemi konunnar. 

Maðurinn sendi henni einnig hótanir í skilaboðum sem þóttu til þess fallnar að vekja ótta hennar um öryggi sitt og velferð.

Héraðsdómur Norðurlands eystra sýknaði manninn þar sem ekki þótti fullsannað hvenær brotin hefðu verið framin og hvort að þau væru fyrnd. Landsréttur hafnaði þeim rökum og sakfelldi manninn. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi