Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Atkvæði greidd um ríkisstjórn á Írlandi

26.06.2020 - 18:02
Micheál Martin, leiðtogi Fianna Fáil á Írlandi.
 Mynd: RTE - RTE, Írska ríkisútvarpið
Það ræðst í kvöld hvort félagsmenn í írsku stjórnmálaflokkunum þremur, sem hafa komið sér saman um að mynda ríkisstjórn, fallast á stefnumál hennar.

Félagsmenn í einum flokkanna, Fine Gail, hafa þegar lokið atkvæðagreiðslu. Stjórnarþátttakan var samþykkt með áttatíu prósentum atkvæða. Kjörsókn var 95 prósent. Búist er við niðurstöðu í Fianna Fáil og flokki Græningja um sjöleytið í kvöld að íslenskum tíma.

Almennt er talið að flokksmenn í Fianna Fáil samþykki stjórnarsáttmálann. Óvíst er um Græningja. Þaðan hafa heyrst óánægjuraddir, einkum vegna stefnumála flokkanna í loftslags- og húsnæðismálum. Það sem flækir stöðuna enn frekar er að samkvæmt flokkslögum Græningja þurfa tveir þriðju hlutar félagsmanna að samþykkja að flokkurinn verði með í stjórn.

Flokkarnir þrír tilkynntu fimmtánda júní að þeir hefðu náð saman um að mynda stjórn. Þá voru fjórir mánuðir liðnir frá þingkosningum á Írlandi. Verði stjórnarmyndunin samþykkt verður Micháel Martin, leiðtogi Fianna Fáil, næsti taoiseach eða forsætisráðherra stjórnarinnar til ársloka 2022.