Afar ósáttur við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina

26.06.2020 - 11:21
epa08503833 State epidemiologist of the Public Health Agency of Sweden Anders Tegnell talks to journalists after a news conference updating on the coronavirus Covid-19 situation, in Stockholm, Sweden, 23 June 2020.  EPA-EFE/MAGNUS ANDERSSON SWEDEN OUT
 Mynd: EPA-EFE - TT NEWS AGENCY
Íbúar Bandaríkjanna, Rússlands, Brasilíu og Katar eru á lista Evrópusambandsins yfir þá sem ekki mega ferðast til Evrópu eftir mánaðamót vegna kórónuveirufaraldursins. Fjöldi smita á heimsvísu nálgast tíu milljónir og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin varar við hættulegri þróun í fjölmörgum ríkjum, meðal annars Svíþjóð. Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar, er afar ósáttur við að Svíar séu í þessum hópi.

Tegnell segir að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hafi gert hrapalleg mistök með því að setja Svíþjóð í sama flokk og Moldóvu, Armeníu, Aserbaísjan, Albaníu og fleiri. Í gær varaði stofnunin við því að smitum fjölgaði hratt í þessum ríkjum og vöxturinn væri svo hraður að það yrði að bregðast við strax. Samkvæmt tölum stofnunarinnar hafa 155 greinst á hverja hundrað þúsund Svía síðustu tvær vikur og hlutfallið innan Evrópu er einungis hærra í Armeníu. Tegnell segir að Svíar hafi fjölgað skimunum til muna, og greini því fleiri, en faraldurinn sé ekki í vexti.

Um helgina fer fjöldi greindra smita á heimsvísu yfir tíu milljónir og þá er líklegt að staðfest dauðsföll verði orðin meira en fimm hundruð þúsund. Seðlabankar og stjórnvöld um allan heim hafa gripið til ýmissa aðgerða til að draga úr efnahagslegum áhrifum farsóttarinnar. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur varað við annarri bylgju, bæði í Evrópu og víðar. Það er ekki síst vegna þess að nú hafa flest ríki aflétt lokunum vegna faraldursins. Veitingastaðir og barir voru opnaðir að nýju og nú fer ferðum milli landa að fjölga.

Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna reyna nú að koma sér saman um hverjir megi ferðast til Evrópu, þegar ytri landamærin verða opnuð eftir mánaðamót. Fjölmiðlar greindu frá því á miðvikudag að Bandaríkin væru á listanum, og það vakti mikla reiði þar. Evrópskir miðlar hafa nú eftir ónefndum leiðtogum innan ESB að Rússland, Brasilía og Katar séu einnig á listanum sem hefur þó ekki verið samþykktur. Samningaviðræður standa nú yfir í Brussel og búist er við að samkomulag liggi fyrir síðar í dag

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi