Eldingar lýsa upp himininn yfir Bangalore á Indlandi í miklu þrumuveðri í nóvember 2009. Mynd: EPA

Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.
Að minnsta kosti 107 létu lífið á Indlandi gær eftir að hafa orðið fyrir eldingum. Nú er monsúntímabilið að hefjast en árlega deyja rúmlega eitt þúsund manns í eldingaveðri.
Tímabilið stendur frá júní og fram í september en því fylgja miklar rigningar sem gegna lykilhlutverki í að fylla á vatnsbirgðir víða í Suður-Asíu, en einnig mikil flóð og eyðilegging. Talið er að um 2.300 hafi dáið á Indlandi árið 2018 eftir að hafa orðið fyrir eldingu en það vekur athygli núna hvað eldingaveðrið er staðbundið. Í Bihar-héraði á austanverðu Indlandi létu 83 lífið í gær, en að sögn almannavarna þar hafa aldrei svo margir dáið í eldingaveðri á einum degi. Óttast er að þessi tala sé enn hærri því enn er beðið tíðinda frá afskekktari svæðum héraðsins. Miklum rigningum er spáð um helgina í Bihar, en auk eldingaveðursins eru mannskæð flóð fylgifiskur monsúntímabilsins á Indlandi.