Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Vita ekki hversu margir voru í húsinu

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Ekki er vitað hversu margir voru í húsinu sem brennur á horni Vesturgötu og Bræðraborgarstígs. Reykkafarar hafa farið inn í húsið til að leita í öllum rýmum. Þetta segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu.

Jón Viðar segir fjóra hafa verið flutta slasaða á sjúkrahús vegna brunans í vesturbænum og ekki er vitað um líðan þeirra.

„Við þurftum að bjarga fólki út með stigum og á annan máta. Sumir komust út sjálfir,“ segir hann.  

Jón Viðar segir slökkviliðið ekki hafa vitneskju um að fleiri séu í húsinu en hann segir engan hafa getað veitt upplýsingar um fjölda þeirra sem búa í húsinu eða fjölda þeirra sem voru inni þegar kviknaði í. Þá segir hann reykkafara enn að störfum.

Slökkviliðið hafi stjórn á brunanum að því leyti að því takist að koma í veg fyrir að hann breiðist til húsanna í kring. Mikil vinna sé eftir því húsið sé að gefa sig og erfitt og hættulegt sé að senda menn inn. Jón Viðar segir að slökkviliðið reyni að vinna utan frá, til dæmis með því að skjóta froðu inn um gluggana. Ekki sé talin hætta á hruni úr húsinu.  

Uppfært kl. 17:22:

Að sögn Jóns Viðar vinnur slökkviliðið að því að rjúfa þakið til að komast að eldinum. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV