Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja reisa minnisvarða um fyrsta svarta íbúa landsins

Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV

Vilja reisa minnisvarða um fyrsta svarta íbúa landsins

25.06.2020 - 11:34

Höfundar

Hans Jónatan var búsettur hér á landi frá 1802 og er talinn vera einn fyrsti svarti maðurinn sem settist að á Íslandi. Lögð hefur verið fram þingsályktunartillaga um að minnisvarði verði reistur til minningar um hann á Djúpavogi.

Eftir að lögreglan í Minneapolis varð George Floyd að bana í harkalegri handtöku reis mótmælaalda í Bandaríkjunum og víða um heim þar sem rasisma, misrétti og lögregluofbeldi er mótmælt. Hér á Íslandi hafa margir stigið fram síðustu vikur og greint frá misrétti og fordómum í sinn garð vegna litarafts. Þykir mörgum brýnt að íslenskt samfélag, eins og bandarískt, fari í sjálfsskoðun í því skyni að uppræta hvers kyns rasisma og fordóma.

 Í Bandaríkjunum hefur ýmis konar afþreying sem þykir gera grín að eða lítið úr ákveðnum kynþáttum verið tekin úr umferð og styttur af þrælahöldurum hafa víða verið fjarlægðar eða þess krafist að þær séu teknar af stalli. Hér á landi eru hins vegar uppi hugmyndir um að reisa styttu eða einhvers konar minnisvarða um Hans Jónatan sem talinn er vera fyrsti svarti maðurinn sem settist hér að. Vilhjálmur Bjarnason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að minnisvarði verði reistur á Djúpavogi til minningar um Hans Jónatan. Styttur af þrælahöldurum falla í Bandaríkjunum en áhugavert verður að sjá hvað stendur eftir þessa umbrotatíma hér á landi. Kannski verður þar á meðal minnisvarði um frjálsan mann og ættboga hans. 

Maðurinn sem stal sjálfum sér

Hans Jónatan var fæddur á  eynni St. Croix í Karíbahafi. Hann kom til Íslands 1802 og hafði búið í Kaupmannahöfn í tíu ár. Hann var sonur ambáttar og var þræll á heimili dansk-þýskra hjóna. Hann flúði þrældóminn til Íslands og settist að á Djúpavogi. Þar giftist hann og eignaðist tvö börn og á um þúsund afkomendur víða um heim. Gísli Pálsson mannfræðingur rannsakaði sögu Hans Jónatans og skráði hana í bókinni Maðurinn sem stal sjálfum sér.

Þrælar en ekki menntamenn knúðu fram réttlæti

Gísli leggur áherslu á að Hans Jónatan hafi valið frelsið. Margir hnýta í það orðalag enda telja fæstir að þrælar hafi staðið frammi fyrir mörgum álitlegum valkostum í lífinu. Gísli notar það hins vegar til að ýta undir þá hugmynd að það hafi ekki verið hástéttafólk í Bandaríkjunum, Bretlandi og Danmörku sem aumkaði sig yfir þrælana og setti lög sem bönnuðu þrælahald heldur hafi þrýstingur frá þrælunum sjálfum ráðið úrslitum. „Það er verið að andmæla þessari klisju að menntamenn í Bandaríkjunum hafi af góðsemi slakað á reglunum,“ segir Gísli. 

Afkomendur urðu fyrir fordómum

Heimildir segja að móttökurnar sem Hans Jónatan fékk á Íslandi á sínum tíma hafi ekki verið litaðar af miklum fordómum. „Það er ekkert sem bendir til að fólk hafi tekið eftir hörundslit hans. Hann starfaði sem verslunarmaður og allar frásagnir um hann, sem eru ekki margar, benda til að honum sé vel tekið fyrst í stað.“  Gísli segir að danskir sagnfræðingar hafi fært rök fyrir því að kynþáttahyggja hafi fyrst komið fram með sykurbransanum og þrælasölunni. „Það svarta fólk sem gekk um stræti Kaupmannahafnar fyrir þann tíma gat strokið frjálst um höfuð sér. En eftir að þrælahaldið var komið á fullt varð þessi flokkun til, að hvítir væru allsráðandi,“ segir hann. Sú flokkun hafi líklega ekki verið komin til Íslands þegar Hans Jónatan settist hér að og því hafi hann ekki fundið fyrir fordómum. Afkomendur hans þurftu hins vegar að þola þá og þeir fóru stundum leynt með uppruna sinn. „Jafnvel hafa einhverjir talað um að fjölskyldualbúmum hafi verið fargað svo hörundsliturinn í fortíðinni kæmi ekki fram.“

Yfirþyrmandi hvítt þjóðfélag

Íslensk börn læra ekki mikið um þrælahald Dana í grunnskólum og virðist sem sú saga taki ekki mikið pláss í þjóðarvitund Íslendinga. Gísli segir að fyrir því séu nokkrar ástæður „en fyrst fremst sú að í tíð sjálfstæðisbaráttunnar verðum við ofsalega hvít og við könnumst ekki við neina blöndu í okkar erfðamengi,“ segir hann. „Við sjáum hvað þetta er yfirþyrmandi hvítt og fullt af feluleikjum. Ekki talað um svarta að neinu ráði.“ Í dag er öldin önnur. „Núna er allgóður hópur af fólki af erlendum uppruna á Íslandi sem hefur verið að stíga fram í kjölfar þessara viðburða vestra eftir morðið á George Floyd. Það er erfitt að sjá hvert þetta leiðir en það er eins og heimurinn sé allur að opnast hvað þetta varðar. Þetta er allt komið á dagskrá og svartir sætta sig ekki lengur við sín kjör og krefjast afsökunar, bóta og þess að sagan verði endurskoðuð.“

„Viljum ekki síður minnast örlaga þeirra“

Gísla finnst tillaga Vilhjálms Bjarnasonar um að reisa minnisvarða um Hans Jónatan á Djúpavogi fín. „Ég vona að ráðamenn gangi í að reisa einhvern minnisvarða. Ég minnist þess að í samræðum við heimamenn á Djúpavogi þeir vilja heiðra minningu Hans Jónatans með einhverjum hætti. Það er ákveðin eftirspurn eftir því.“ Gísli segir að leiðsögumenn sem fara um þessar slóðir séu reglulega spurðir um Hans Jónatan og þegar þeir leita að ummerkjum um líf hans og komu til Djúpavogs grípi þeir í tómt. „Það er fátt sýnilegt um hann fyrir utan minnisvarða í kirkjugarðinum á Hálsi þar sem hann hvílir einhvers staðar í ómerktri gröf. Ég held að það sé tímabært að reisa honum minnisvarða en það skiptir máli hvernig það er gert.“ Hann segir mikilvægt að velta því fyrir sér hvers sé verið að minnast. „Er það hörundsliturinn, þrældómurinn, æviferillinn eða persónan?“ 

Sjálfur segist Gísli telja eðlilegast að minnast perónu Hans Jónatans, afkomenda hans á Íslandi og sögu þrælanna sem knúðu fram réttlætið. „Það er val þeirra margra sem holaði steininn og endanlega felldi ríkjandi lög um þrælahald,“ segir Gísli. „Og það er ekki bara hann. Hann á þúsund afkomendur og saga þeirra er merkileg. Margir af annarri og þriðju kynslóð þurftu að glíma við andstreymi. Minnisvarði væri líka þessu fólki til heiðurs og kall inn í þennan samtíma sem við búum í núna. Við erum ekki síður að minnast þessa fólks og örlaga þeirra heldur en sögu Hans Jónatans.“

Anna Marsibil Clausen ræddi við Gísla Pálsson í Lestinni.

Tengdar fréttir

Tónlist

George Floyd var eitt sinn rapparinn Stóri Floyd

Menningarefni

Hluti af samfélaginu eða staðalímynd?