Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Varp hefur minnkað verulega í Eyjum og á Breiðafirði

25.06.2020 - 07:00
Mynd með færslu
 Mynd: Náttúrustofa Suðurlands
Stofnvöktun lunda hefur lokið skoðun á lundavarpi í tólf byggðum. Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands, segir varp áberandi minna en í fyrra á Breiðafirði og Vestmannaeyjum. 

Á Breiðafirði er um hálf milljón af lundaholum. Eitt lundapar getur búið og verpt í hverri holu en nýting þeirra er misjöfn milli ára. Erpur segir að í fyrra hafi verið verpt í 88 prósent af holunum en í ár er aðeins verpt í rúmlega helming þeirra. Þetta er tæp 34 prósenta minnkun milli ára. 

Í Vestmannaeyjum eru rúmlega milljón lundaholur. Þar hefur einnig verið verpt í rúmlega helming þeirra en í fyrra var verpt í 78 prósent þeirra. Erpur segir að í öðrum byggðum séu breytingarnar frá ári til árs litlar fyrir utan Lundey á Skjálfanda. Þar jókst varp um tæp þrettán prósent. 

Breiðafjörður og Vestmannaeyjar eru afar mikilvægar varpstöðvar en þar verpa um sextíu prósent íslenska lundastofnsins.

 

Mynd með færslu
Stofnvöktun lunda, „lundarallið“, að störfum. Mynd: Náttúrustofa Suðurlands.
Mynd með færslu
Lundar í bjargi. Mynd: Náttúrustofa Suðurlands.

Breyting á fæðu sennileg útskýring

Lundavarpið var sérlega gott í Eyjum á síðasta ári en útlit er fyrir að færri pysjur líti dagsins ljós í sumar. 

Erpur segir hins vegar að varpið sé snemma á ferð í Vestmannaeyjum í ár en hann rakst á tvo unga þar við skoðunina. Hann segir að ungarnir ættu að verða orðnir fleygir í byrjun ágúst ef þeir vaxa á eðlilegum hraða. „Það er þremur vikum fyrr en þetta hefur verið síðastliðin tíu ár eða svo,“ segir Erpur. 

Lundinn hefur átt á brattann að sækja undanfarin ár og stofninn fer minnkandi. Hann er einn þriggja fugla sem eru á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands yfir fuglategundir í bráðri hættu. 

Erpur segir athyglisvert að varp í Faxaflóa standi nokkurn veginn í stað milli ára á meðan bakslag er á Breiðafirði. „Þessir staðir hafa haldist í hendur þessi tíu ár sem við höfum verið að skoða þetta, svo þetta er nokkuð sérstakt,“ segir hann. Erpur segir að ástæðan fyrir minnkun varps á Breiðafirði og í Vestmannaeyjum tengist breytingum á fæðu. Stofnvöktun lunda, eða „lundarallið“ eins og það er gjarnan kallað, ætlar að fara aðra ferð í varpstöðvarnar í júlí til þess að gá að ungunum og sjá hve margir komast á legg.